Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvissa í kornrækt á Norðurlandi

15.08.2022 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Á Norðurlandi hefur verið mikil kuldatíð síðustu mánuði og  það frysti eina nótt í ágúst. Kuldinn hefur haft nokkur áhrif á kornrækt. Enn vona menn að hægt verði að uppskera en þá þarf sólin að láta sjá sig.

Ágúst þarf að vera sólríkur

Sigurgeir B. Hreinsson, formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, segir að ágústmánuður þurfi að vera sólríkur svo að hægt verði að uppskera í kornrækt, en slíkt sé ekki í kortunum. „Og líka af því það var ekkert sérstaklega snemma sáð í vor og frostið var það lítið að menn vonast nú til að þetta hafi sloppið,“ segir Sigurgeir.

Mikil kuldatíð olli seinagangi

Hjá Hermanni Inga Gunnarssyni, kornbónda í Eyjafirði, er ekki öll von úti enn um ágætissprettu. Hann segir að sólarleysi og kuldi í vor hafi orðið til þess að sáð var mánuði of seint. „Þetta er búið að vera verulega kalt, það er það sem hefur verið helsta vandamálið okkar og sérstaklega í vor þegar þetta var að fara af stað og það gerir það að verkum að þetta er mjög seint núna. Þetta skreið seint og var bara lengi að koma upp af því jarðvegurinn var mjög kaldur. Það náttúrulega snjóaði þarna um miðjan maí hjá okkur,“ segir Hermann.

Blanda af áhyggjum og bjartsýni

Hann segir líf kornbóndans alltaf blöndu af áhyggjum og bjartsýni og nú finni hann fyrir hvoru tveggja: „Ef það kemur gott haust, sólríkt og hlýtt þá lítur  þetta bara vel út með uppskeru en það þarf allt að ganga upp úr þessu.“