Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjöldi barna á flótta fær ekki inni í skóla

15.08.2022 - 22:20
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Dæmi eru um að úkraínsk börn á flótta komist ekki að í grunnskólum hér á landi vegna þess að foreldrar þeirra eiga ekki rafræn skilríki. Um 1.500 flóttamenn hafa komið hingað til lands frá Úkraínu síðan stríðið hófst en spár gera ráð fyrir að þeir verði orðnir 4.000 fyrir árslok. 

Foreldrar úkraínskra barna á flótta fá margir hverjir ekki lögheimili vegna húsnæðisskorts. Það leiðir síðan af sér að börn þeirra fá ekki inni í grunnskólum. Samkvæmt stundaskrá hefst skólahald í grunnskólum landsins eftir viku. 

Sveinn Rúnar Sigurðsson starfrækir athvarf fyrir flóttafólk víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og hann segir að stjórnvöld standi frammi fyrir bráðum vanda. Þúsundir flóttamanna gætu verið á leið hingað til lands frá Úkraínu þegar verð á flugfargjöldum lækkar með vetrinum.

„Við þurfum að gera ráð fyrir að spár ýmissa aðila gera ráð fyrir allt að fjögur þúsund manns. Og þetta er orðið erfitt, en við erum eingöngu komin í 1.500 manns. Og reglur sveitarfélaganna eru þannig að ef barn er ekki með fasta búsetu hér á Íslandi, þá fær það einfaldlega synjun frá sínu skólaúrræði þar sem það er statt hverju sinni,” segir Sveinn.

Segir dóttur sína hafa áhyggjur

Natalia á tólf ára dóttur sem fær ekki pláss í skólakerfinu vegna þess að Natalia er ekki með rafræn skilríki. Það er vegna þess að hún er með úkraínskt vegabréf en ekki alþjóðlegt vegabréf. 

„Við erum núna í tímabundnu húsnæði. Við getum búið í Svanshúsi þar til 13. október. Við komum hingað með úkraínsk vegabréf, en erum ekki með rafræn skilríki og getum því ekki skráð hana í skóla. Hana langar í skóla og hún hefur miklar áhyggjur af þessu,” segir hún.

Óttast tungumálaörðugleika

Barn Nadiu komst inn í skóla í Hafnarfirði eftir þónokkra bið. Hún segist hrædd um son sinn sem kann enga íslensku ennþá. Þrátt fyrir það segist hún treysta íslensku menntakerfi.

„Ég veit að allt á Íslandi er gert til þess að það henti íbúum sem best og stuðli að velferð þeirra. Ég held að það sé ekki vandamál að sækja sér menntun hér á Íslandi,” segir hún.

Spennt fyrir menntaskólanum

Tina er fimmtán ára gömul og hefur nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð á næstu dögum. Hún segist eiga marga úkraínska vini en er spennt að kynnast íslenskum krökkum. Hún segist einnig spennt að kynnast nýjum námsaðferðum.

„Ég er mjög spennt fyrir því að læra sjálf, nýrri reynslu og nýjum námsaðferðum. Ég held að það verði mjög áhugavert.”