Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill sýna að hún eigi heima á svona mótum

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Vill sýna að hún eigi heima á svona mótum

14.08.2022 - 14:20
Evrópumótið í frjálsíþróttum hefst í München á morgun. Einn Íslendingur keppir strax á þessum fyrsta keppnisdegi. Erna Sóley Gunnarsdóttir þreytir þá frumraun sína á stórmóti í fullorðinsflokki þegar hún keppir í forkeppni kúluvarpsins í fyrramálið.

„Ég hef farið á fullt af yngri mótum. Þannig ég er bara mjög spennt að taka næsta skref og fara á stórmót í fullorðinsflokki,“ sagði Erna Sóley Gunnarsdóttir við RÚV um þátttöku sína á EM í frjálsíþróttum í München. Erna Sóley keppir í forkeppni kúluvarpsins kl. 9:20 í fyrramálið.

En hvaða væntingar fer Erna með inn í keppnina sjálfa? „Ég vil fyrst og fremst taka sem mesta reynslu með mér út úr þessu móti. Mér er ekkert raðað neitt ofarlega á listann inn á mótið. En ég vil bara öðlast sem mesta reynslu og gera mitt allra besta.“

Á framtíðina fyrir sér

„Það eru ekki miklar líkur á því að hún komist upp úr undankeppninni. En bara að mæta á stóra sviðið, sjá hinar og sjá hvernig þetta er gert og negla á það,“ það sagði Pétur Guðmundsson þjálfari Ernu við RÚV. „Ég vil líka bara sýna það að ég eigi heima á svona mótum, ná að halda andliti og gera mitt besta,“ sagði Erna um kúluvarpskeppnina á EM í München á morgun.

„Hún er virkilega efnileg. Það er gaman að fá að þjálfa hana og vera með í þessari uppbyggingu sem hún er að standa í. Hún er líka að mennta sig og svona. Þannig hún á bara framtíðina fyrir sér,“ sagði Pétur Guðmundsson Íslandsmethafi karla í kúluvarpi sem sjálfur keppti á þremur Evrópumótum, 1990 í Split, 1994 í Helsinki og 1998 í Búdapest, auk þess að hafa unnið brons á EM innanhúss árið 1994.