Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þurfa reglulega að stöðva fólk sem æðir út á nýtt hraun

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Youtube
Forsvarsmaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík segir að reglulega þurfi að hafa afskipti af fólki sem ætli að æða út á nýtt hraun nærri eldgosinu í Meradölum. 

Á samfélagsmiðlum gengur nú myndband af fólki sem gengur á glænýju hrauni í Meradölum og að gígnum sjálfum. Ísak Finnbogason tók drónamyndir af því í gær, og sagði í samtali við Vísi að hann hafi reynt að nota drónann til þess að vara við hættunni, en skömmu áður hafi hraun verið að slettast á þessu sama svæði.

Atvikið sem um ræðir má sjá á myndskeiðinu hér að neðan.

„Já, því miður þá kemur það reglulega upp að við þurfum að hóa í fólk sem er að leggja af stað út á hraunið. Þetta því miður fylgir þessu og hefur hangið yfir okkur,“ segir Steinar Þór Kristinsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni.

Jákvætt skref að fá landverði

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tilkynnti í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að ráðning landvarða við gosstöðvarnar sé í undirbúningi, sem gætu þá leyst björgunarsveitirnar af hólmi. 

„Okkur lýst bara nokkuð vel á þetta. Þetta reyndist mjög vel í síðasta gosi. Þá léttu þeir mikið undir, eru með þessa upplýsingagjöf, leiðsögn og eftirlit á svæðinu. Þannig þetta mun létta alveg gríðarlega á okkar fólki,“ segir Steinar Þór.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Steinar Þór Kristinsson.

Björgunarsveitir hafa þó líka kallað eftir aukinni löggæslu.

„Umferðin þarna er á köflum erfið, fólk er að stoppa og spá og spekúlera varðandi bílastæði og alls konar svona. Svo það þarf í rauninni að vera virk löggæsla þarna líka. En landvarslan mun klárlega hjálpa mikið.“

Metfjöldi í gær og annað eins í dag

Um 6.500 manns voru við gosstöðvarnar í gær, og hafa aldrei verið fleiri síðan teljari Ferðamálastofu var settur upp. Reiknað er með öðru eins í dag.

„Mér sýnist það. Öll bílastæði voru orðin full og mikil traffík þarna upp eftir þegar ég kíkti rétt fyrir hádegið. Það verður hellingur þarna í dag, enda bjartara yfir og flottara veður. Það stefnir því í mikinn fjölda og nú er bara að vona að fólk sé tilbúið í ferðalagið,“ segir Steinar Þór Kristinsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni.