Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sonur Rushdies segir hann halda í kímnigáfuna

Mynd með færslu
 Mynd: Ed Lederman/PEN American Center - wikimedia commons
Fjölskylda rithöfundarins Salmans Rushdie kveðst afskaplega fegin því að hann þurfi ekki lengur á öndunarvél að halda. Sonur hans segir föður sinn greinilega halda skopskyninu þrátt fyrir að hafa særst alvarlega í hnífaárás á föstudag.

Zafar, sonur Rushdies greindi frá þessu á Twitter, og bætti við að faðir hans hefði sagt nokkur orð við fjölskyldu sína. Þrátt fyrir þær jákvæðu fréttir sagði Zafar fólk verða að hafa í huga að áverkarnir eru mjög alvarlegir og að atvikið ætti eftir að breyta lífi Rushdies.

„Hann heldur nú samt sínum herskáa húmor,“ segir Zafar. Hann þakkaði fyrir skjót viðbrögð áhorfenda bókahátíðarinnar, þar sem Rushdie var við það að taka til máls.

Hann sagði það hafa sýnt mikið hugrekki með því að stöðva atlögu árásarmannins. Zafar kvaðst þakklátur fyrir allan þann velvilja og stuðning sem Rushdie og fjölskyldan öll hefðu fundið hvaðanæva að.

Andrew Wylie, umboðsmaður rithöfundarins, segir hann á batavegi en að líklegt sé að hann missi annað augað. Hann hafi einnig særst illa á kviðarholi.  Árásarmaðurinn, hinn 24 ára gamli Hadi Matar, viðurkenndi ekki sök þegar hann var leiddur fyrir dómara í morgun.