Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Snýst í norðanátt í dag og lægð væntanleg um miðja viku

14.08.2022 - 08:29
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Það er hæg breytileg átt víða um land í morgunsárið en í dag gengur í norðlæga átt, þrjá til átta metra á sekúndu þegar líður á daginn. Það verða stöku skúrir, einkum fyrir norðan og austan, en það léttir til sunnan- og vestanlands í kvöld. Hiti verður sex til fimmtán stig og hlýjast syðst.

Á morgun er von á norðvestan golu eða kalda og stöku skúrum norðan- og austantil, en léttskýjað í öðrum landshlutum þar sem hiti breytist lítið. Á þriðjudag snýst í suðvestlæga átt og þá er gert ráð fyrir skúrum suðvestantil en björtu veðri annars staðar.

Á miðvikudag er svo von á lægð upp að landinu. Henni fylgir rigning og sums staðar allhvöss suðaustanátt. Það verður þó úrkomuminna norðaustantil og hiti verður á bilinu átta til þrettán stig.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV