Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vegagerðin býr sig undir að hraun nái Suðurstrandarvegi

Vegagerðin fundaði með Almannavörnum í vikunni um framtíð Suðurstrandarvegar, vegna eldgossins í Meradölum. Forstjórinn segir það áhyggjuefni ef hraun stefnir að þjóðvegi.

Það er óneitanlega fallegt, eldgosið í Meradölum, og laðar að ferðamenn og jarðvísindamenn víðs vegar að. Því fylgja samt ákveðnir ókostir.

„Við höfum náttúrulega bara áhyggjur af því þegar hraun stefnir að þjóðvegi, eðlilega. Það gerir það kannski ekki akkúrat í augnablikinu en það eru ákveðnar líkur á því að það verði, skilst okkur og þá náttúrlega líkur á því að það verði rof, og þá náttúrulega skiptir máli hvar það rof verður,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hélt samráðsfund með Almannavörnum í gær til að fara yfir þær aðgerðir sem þarf að ráðast í ef hraunið rennur yfir Suðurstrandarveg. Hraunið sem rann í Geldingadölum komst nærri veginum, en nýja gosið liggur fjær honum en það fyrra. Þó gæti verið skammt að bíða þess að hraunið renni úr dölunum, og þá er aðeins fjögurra kílómetra leið niður að veginum. 

„Auðvitað snýst þetta um Suðurstrandarveginn og hvernig og hvað verði gert í kringum hann ef hraunið fer að nálgast hann.“

Hægt að sigla með fólk ef báðir vegir rofna

Enn er beðið eftir líkani af hraunflæðinu og öðrum gögnum svo hægt verði að spá fyrir um þróunina næstu daga og vikur. En Reykjanesskaginn er vaknaður, og þar getur gosið á fleiri stöðum á næstunni. Og það getur aukið enn á áhyggjur Vegagerðarfólks.

Vegagerðin hefur líka rætt um Reykjanesbrautina við Almannavarnir, og Bergþóra segir að sá munur sé á þessu gosi og því fyrra, að nú séu stofnanirnar betur undirbúnar.

„Það er í sjálfu sér ekkert plan í  gangi varðandi það ef báðir vegirnir rofna, enda ef þú horfir á Reykjanesskagann þá eru burðugir vegir báðum megin við hann. Það er ýmislegt hægt að gera, meðal annars sigla fólki ef sú staða kemur upp, það eru líka ýmsar þveranir á milli þessara vega á Reykjanesskaganum, þannig að það fer eftir því hvar þessar jarðhræringar koma upp hvaða möguleikar verða í boði varðandi hjáleiðir til dæmis,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir.