Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tólf látin eftir skotárás í Svartfjallalandi

13.08.2022 - 02:00
epa10117912 A crime scene investigator carries a rifle as evidence believed to belong to the perpetrator of a mass shooting at Cetinje, Montenegro, 12 August 2022. A 34 year old male in Montenegro went on a shooting rampage after a family dispute, killing at least 10 people on the street before being gunned down in an exchange of fire with the police.  EPA-EFE/BORIS PEJOVIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tólf eru látin og sex særð eftir skotárás í borginni Cetinje í Svartfjallalandi. Árásarmaðurinn sjálfur er meðal hinna látnu en sjónarvottar segja hann hafa skotið af handahófi á vegfarendur, þeirra á meðal börn.

Andrijana Nastic saksóknari segir í samtali við ríkisfjölmiðilinn RTGC að tvö börn hafi látist í árásinni en vill hvorki greina frá aldri þeirra né upplýsa frekar um fórnarlömb árásarinnar.

Nastic segir að almennur borgari hafi orðið árásarmanninum að bana. Hann var 34 ára. Áður var sagt að lögregla hefði fellt hann.

Lögreglumaður er meðal þeirra særðu en The Guardian greinir frá að maðurinn virðist hafa misst stjórn á sér eftir fjölskyldudeilur og vitnar í RTGC máli sínu til stuðnings.

Ekkert hefur verið upplýst frekar um þann þátt málsins. Íbúum borgarinnar er mjög brugðið og segjast ekki trúa að slíkur atburður hafi gerst þar.

Fjögur þeirra særðu voru flutt á sjúkrahús í Cetinje en tvö sem særðust meira á sjúkrahúsí höfuðborginni Podgorica.

Dritan Abazović, forsætisráðherra Svartfjallalands sagði fordæmislausan harmleik hafa borið að og hvatti íbúa landsins til hugsa með hlýhug til þeirra látnu, ættingja þeirra, vina og allra íbúa Cetinje. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV