„Þér hættir til að velja þér að vera mella“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þér hættir til að velja þér að vera mella“

13.08.2022 - 09:00

Höfundar

„Viltu ekki sjá brjóstin á mér líka, eða mynd af mömmu?“ er setning sem hinir fjölmörgu aðdáendur Eddu Björgvinsdóttur þekkja. Það er auðvitað tilvitnun í eina frægustu grínsenu íslensks áramótaskaups sem nýverið var kosinn fyndnasti skets sögunnar. Bergur Ebbi Benediktsson grínisti er mikill aðdáandi Eddu og þau ræddu saman um leiklistina og grínið.

Uppistandarinn og hugsuðurinn Bergur Ebbi Benediktsson fékk tækifæri til að velja sér annan viðmælanda í Tengivagninum á Rás 1 á dögunum og valdi þar Eddu Björgvins til liðs við sig en Edda hefur ætíð verið honum mikil fyrirmynd. „Ég hef eins og þorri þjóðarinnar alltaf litið upp til Eddu og tel hana mikinn listamann,“ segir Bergur um fyrirmyndina. „Hún er í sama geira og ég, í gríninu, en meira leiklistarmegin. En ég vil meina að hennar afstaða til listarinnar og kómedíunnar sé eitthvað sem ég vil mjög mikið samsama mig við,“ segir hann. Þau eru sammála um að grín og drama séu alls ekki andstæðir pólar heldur að þetta tvennt vegi frekar salt. „Rótin er sú sama og hún er samlíðan og jafnvel einhvers konar þjáning,“ segir Bergur Ebbi. Í verkum Eddu eru augljós dæmi „þar sem dramað og húmorinn rennur saman í eitt og grínið skilur eftir tilfinningu sem gefur manni eitthvað,“ segir hún.

Heiður að Bergur skuli velja sig

Edda segir að aðdáun Bergs sé afar gagnkvæm. „Mér er svo mikill heiður sýndur að Bergur Ebbi skuli velja mig í gríninu. Manni finnst maður einhvern veginn verða að kyngja því að yngri grínarar líti niður á eldri, að það sé pínu púkó, hallærislegt og liðin tíð og ekki til að tala mikið um, hvað þá líta upp til.“ Sá ótti að virðast gamaldags í augum þeirra sem yngri sé hluti af rótgróinni minnimáttarkennd þeirra sem hafi verið að fást við grínið um árabil. „Ég varð sérstaklega glöð að Bergur Ebbi valdi mig því ég er mikill aðdáandi þinn Bergur, ég er með mikið gáfumannasnobb og mér finnst þú svo djúpt gáfaður. Ég hef séð þig í uppistandi, farið á fyrirlestra og fylgst með þér. Svo höfum við leikið saman í kvikmynd og það er svo mikið þarna í þessum strák, eins og maður myndi segja við vinkonu sína. Ægilega djúpur þessi strákur og mikið í hann spunnið.“

Fékk kvíðahnút í magann fyrir fyrsta uppistandið

Edda útskrifaðist úr leiklistarskólanum árið 1977 og segir að allur bekkurinn hafi stefnt á að leggja fyrir sig dramatískan leik. Hún fór þó aðra leið þegar hún byrjaði að leika í áramótaskaupinu, og fólk áttaði sig á taumlausri fyndni hennar. Fljótlega var hún beðin um að koma fram með uppistand en það þótti henni afar ógnvænlegt. „Ég fékk þvílíkan kvíðahnút í magann; meinarðu að standa bara ein fyrir framan fullt af fólki, segja eitthvað og fá þau til að hlæja?“ En á eftir henni komu kynslóðir uppistandara sem virtust og virðast óhrædd við að stíga á svið og grína. „Þarna kom ný kynslóð og allir þessir flottu strákar og stelpur sem víluðu ekki fyrir sér að prófa sig áfram. Ef eitthvað bombaði eða virkaði ekki þá bara lærðu þau af því og gerðu betur næst. En ég var bara óttaslegin,“ segir hún og beinir orðum sínum til Bergs Ebba. „Það var svo gaman að fylgjast með ykkur fara með þetta í nýjar hæðir, á þennan prófessjonal stað sem allir núna bera ótrúlega virðingu fyrir. Góður uppistandari er náttúrulega bara margfalt þyngdar sinnar virði í gulli.“

„Við stóðum á öxlum risa“

Bergur segir að uppistand sé einhvers konar alþýðulist og upphefðin sem Edda vísar í komi beint frá fólkinu, hún skili sér svo í hlátri og miðasölu. „Það eru ekki veitt verðlaun í uppistandi sem er líklega ágætt. Það eru ekki nein samantekin ráð um að einhverjir krítíkerar ákveði að þetta sé betra en annað og upphefji það,“ segir hann. „Það er ólíklegra að grínistar eða uppistandarar hljóti þannig vegtyllur. Hvort sem það eru listamannalaun eða borgaraleg verðlaun sem samfélagið veitir.“ Um leið og skipaðir verði hliðarverðir sem ákveði hvað sé fyndnara en annað, þá hverfi vald fólksins sem hlær.

En hans kynslóð grínista segir Bergur að vera forverum sínum að þakka að miklu leyti. „Við náttúrulega stóðum á öxlum risa ,“ segir hann. Sjálfur hafi hann á sínum yngri árum litið mikið upp til grínista á borð við Radíusbræður, Ómar Ragnarsson, Flosa Ólafsson og fleiri.

„Þér hættir til að velja þér að vera mella“

Á meðal sinna fyrirmynda nefnir Edda Sigríði, eða Diddu Þorvaldsdóttur sem var óhrædd við að vera og kalla sig grínista. „Ég bar svo takmarkalausa virðingu fyrir henni, mér fannst hún svo fyndin og flink,“ segir Edda. Ekki hafi það alltaf þótt virðingarvert að vilja vera grínisti. „Þegar Örn Árnason fór í leiklistarskólann og sagðist ætla að einbeita sér að því að vera fyndinn, það var náttúrulega bara horft á hann með djúpri fyrirlitningu og honum sagt að gera sér grein fyrir því að þetta væri ekki þannig listgrein, hann hefði misskilið og þetta væri alvarlegur skóli,“ segir Edda. Sjálf hafi hún stundum fengið athugasemdir fyrir að feta þessar slóðir: „Einn kennarinn minn, sem ég gleymi aldrei sagði: veistu það Edda, þér hættir svolítið til að detta í kómík og þér hættir til að velja þér að vera mella.“

Mynd: Lifðu núna / Enn á tali
Hér er hægt að hlýða á þáttinn Enn á tali sem Edda Björgvins og Helga Thorberg gerðu saman

Konurnar tóku þátt

Sjálf var Edda fengin í viðtalsþátt til að ræða um gamanleik, ásamt Flosa Ólafssyni, Bessa Bjarnasyni, Ómari Ragnarssyni og Magnúsi Ólafssyni en hún var eina konan í hópnum eins og svo oft. Spyrillinn spurði hvort að það væri sjaldgæft að konur færu í gamanleik og Edda svaraði: „Þú sérð hlutföllin hér!“ Blessunarlega hafi hlutföllin fljótt breyst þegar konur á borð við Ólafíu Hrönn, Halldóru Geirharðs og Helgu Brögu tóku að stíga á svið.

Berskjöldun með gervitönnum, hreim og hárkollu

Vel heppnuð fyndni segir Edda að krefjist berskjöldunar og einlægni. „Ef maður opnar sálina og hjartað upp á gátt og eiginlega strippar sig þá er það svo nærandi fyrr sálina en jafnframt særandi þegar það gengur ekki,“ segir hún. „Ég fer dýpra, sýni meira og legg meira á borðið ef grínið á að virka. Alveg sama þó maður sé með tennur, hreim og hárkollu. Ef að þetta er ekki þá er það bara eitthvað svona skopp - svona sápukúla.“

Að leggja hjarta sitt undir fallöxina

Edda spyr Berg hvort hann sé ekki sammála henni og Bergur tekur undir. „Maður uppsker eins og maður sáir í þessu eins og öllu öðru. Það er til vont grín og gott grín. Það fer bara eftir hvort manneskjan hafi lagt mikinn tíma í að afhjúpa sig,“ segir Bergur. „Það krefst rosalega mikillar orku og einbeitingar að ná þessu stigi þar sem þú fellir niður varnirnar en heldur samt einhverri lágmarkstækni, þannig að þetta fari ekki út af sporinu.“ Í þeirri kúnst sé aðdráttaraflið fólgið. „Þetta er í raun eins og að horfa á einhvern línudans, eitthvað sem er alveg stórhættulegt og í rosalegustu dæmunum einhver að leggja hjartað sitt undir og kjötexin er bara alveg við það að slasa hjartað á hverri sekúndu. Svo dramatískt er þetta.“

Fá betur borgað og meiri ást frá almenningi

Edda bendir á að grínistar hljóti sjaldan verðlaun eins og Óskarsstyttu eða Grímuna og Bergur Ebbi rifjar þá upp orð Gísla Rúnars heitins. „Ég var að rifja upp um daginn að gamanleikarar fái ekki upphefðina og hann var með langbesta svarið. Hann sagði: En sjáðu til, við fáum miklu betur borgað,“ segir Bergur. Edda tekur undir. „Gísli sagði líka: en almenningar elskar okkur.“

Hafnar pólitískt kórréttri kröfu

Edda segir að ákveðið hömluleysi geti virkað vel í gríni og óttaleysi við að fara yfir mörk. Ricky Gervais sé gott dæmi um grínara sem hræðist ekki að ganga fram af fólki. „Mér finnst hann svo brjálæðislega fyndinn en hann ætlar ekki að fara politically correct leiðina, hann verður djarfari og verri og ætlar ekki að láta leiða sig þangað,“ segir hún. Ricky sé einmitt maður sem þekki grínið og dramað. „Hann gerir Office þættina og er svo brjálæðislega flinkur í alla staði þessi listamaður en svo gerir hann þessa fallegu seríu um manninn sem hefur misst konuna sína. Þá verður hann svo dramatískur að maður grætur yfir honum,“ segir hún.

Bibba á Brávallagötunni, einn fjölmargra karaktera sem Edda hefur brugðið sér í, hafi einmitt verið hömlulaus og ekki pólitískt kórrétt. „Ég lét hana ekki bara tala vitlaust mál heldur lét ég hana alltaf vera málsvara þess sem ég fyrirleit og hún var líka alltaf náskyld stjórnmálafólkinu sem mér fannst ekki í lagi,“ segir Edda.

Ekki tímabært að gera grín að trans fólki

Bergur tekur undir að það sé virðingarvert að gefa ekki eftir en að það geti líka verið varhugavert að ætla sér að gera grín að öllum hópum. „Uppistandarar geta lent í því að þeir vilji ekki gefa eftir en vilja halda því að gera grín að ákveðnum minnihlutahópum sem þeim finnst að ekki þurfi að jafnmikla hlífiskildi og aðrir en þá geta þeir lent í þeirri gryfju að halda að þá eigi þeir að byrja að gera grín að öllum,“ segir Bergur.

Réttindabarátta geti verið viðkvæmum stað og minnihlutahópar ofsóttir. Trans fólk, sem Ricky Gervais hefur meðal annars gert að skotspóni sínum í gríni, sé þar á meðal. „Þá finnst mér í raun að það eigi ekki að gera grín að þeim, þú gerir það kannski seinna þegar þær eru orðnar authoritet,“ segir hann. „Það er barátta sem er enn að finna vopnin sín og þetta er enn þá mjög viðkvæmt.“

Edda er sammála: „Harmur plús tími verður húmor. Ég er svo algerlega sammála, það má gera grín að öllu en það eru tímasetningarnar sem skipta þarna öllu máli,“ segir hún.

Íslenskt frí einkennist af alkóhólisma og reddingum

Tíminn getur farið mjúkum höndum um grín en líka illa með það. Sumt grín verður klassískt á meðan annað eldist skelfilega. Edda bendir á Chaplin sem grínara sem takist alltaf að slá í gegn og minnist líka á kvikmyndina Stellu í Orlofi sem hún sjálf lék aðalhlutverkið í. „Þetta er óvenjugott flækjuhandrit sem er ofsa erfitt að gera en svo er hitt líka til staðar,“ segir hún.

Bergur segir að Stella snerti mikilvægan streng í íslenskri þjóðarsál sem flestir kannist við. „Við erum í raun margbrotin og þetta eru alltaf hálfvonlausar aðstæður. Það kemur hvergi betur í ljós en einmitt þegar fólk fer í frí hvað þetta er disfúnksjonal, mikill alkóhólismi og vitleysa,“ segir hann. „Þetta er allt mikið basl, það er bæði kalt og erfitt að fara í berjamó eða að veiða og gera þetta sem á að vera rosalega næst og skemmtilegt.“ Þá komi bjartsýnin mörgum langt. „Það eru manneskjurnar sem eru límið í okkar samfélagi. Þessu hafa ekki verið gerð almennileg skil hvorki í bókmenntum né öðrum listgreinum. Þess vegna er þetta svo klassískt, þetta er svo flott gert í þessari mynd.“

Konurnar sem standa þriðju vaktina

Edda kannast við týpuna og þekkir hana í sjálfri sér og konum í kringum sig. „Það er svo rótgróið að redda, halda saman og passa upp á að tengja, finna út úr og halda í bjartsýnina og gleðina,“ segir Edda um þessar konur sem hún kallar holdgervinga „þetta reddast“ hugarfarsins. Bergur þekkir þær líka. „Það er verið að greina þetta með aðferðum félagsvísinda, sérstaklega hlutskipti kvenna það sem er kallað þriðja vaktin í dag eru öll þessi þöglu störf sem konur hafa sinnt og hafa að gera með empatíu,“ segir hann.

Þau sammælast um það að lokum að hlátur og grín geti veitt vellíðan og líkn sem veiti kærkomna hvíld frá amstri dagsins.

Rætt var Eddu Björgvinsdóttur og Berg Ebba Benediktsson í Tengivagninum á Rás 1.