Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stöðugt hraunflæði og unnið úr nýjum gögnum

Mynd: RÚV / RÚV
Gosórói í Meradölum minnkaði um tíma í morgun, en tók sig svo upp að nýju. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir eldgosið í meginatriðum hafa verið svipað síðustu daga.

„Það flæðir stöðugt hraun frá gígunum og það hefur aðeins verið að þykkna til norðurs. Það fer þó ekki langt.“

Hraunið hefur hins vegar ekki hækkað við skarðið austast þaðan sem það myndi flæða upp úr Meradölum.

„Við vitum ekki hvenær það heldur áfram þar eða færi út úr dölunum. En þetta er allt svolítið við það sama.“

Unnið úr nýjum gögnum frá í morgun

Það var flogið yfir eldstöðvarnar í morgun til þess að safna gögnum, sem á eftir að vinna úr.

„Tilgangur flugsins er að taka loftmyndir til þess að gera nákvæmt kort af hrauninu og geta þannig metið nákvæmlega rúmmál og reiknað þá hversu mikið er að koma upp. Þá ætti að vera hægt að sjá í hvað stefnir.

Aðstæður voru ekki voðalega góðar, það þurfti að fljúga mjög lágt þannig það tekur miklu meiri tíma að vinna úr því heldur en við bestu aðstæður. Vonandi eigum við einhverjar niðurstöður í kvöld en það er ekki hægt að lofa því. Vonandi  verður þá líka hægt að fljúga aftur á morgun,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.