Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ekki endalaust til á tanknum hjá björgunarsveitum

13.08.2022 - 13:01
Eldgos í Meradölum, björgunarsveit, björgunarsveitir, meradalir, eldfjall, eldgos
 Mynd: Sunna Karen Sigurþórsdóttir - RÚV
For­maður Lands­bjargar telur rétt að efla löggæslu við gosstöðvarnar og segir ekki hægt að ganga á úthald björgunarsveitarmanna mánuðum saman. Síðast gaus í sex mánuði á Reykjanesskaga. 

„Nú er haustið að fara að koma og svo kemur vetur. Og ef við förum ekki að svona huga að því allavega að skipta út okkar fólki á gosstöðvunum, þá náttúrulega verður lítið eftir á tanknum þegar það kemur vetur. Þetta er auðvitað allt sjálfboðastarf og björgunarsveitarfólk er sjálfboðaliðar, þetta snýst ekki um fjármagn eða fé gagnvart okkur. Þetta snýst bara um að við eigum ekki endalaust af fólki til að sinna þessu í svona rosalega langan tíma, ” segir Otti Rafn Sigmarsson, for­maður Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar.

Meira en 35 mismunandi björgunarsveitir með rúmlega 350 manns hafa tekið þátt í verkefnum tengdu gosinu. Otti segir að björgunarsveitir muni eftir sem áður sinna leit og björgun en dagleg gæsla á svæðinu eigi fremur heima hjá öðrum. Hann segir ekki nóg að bæta við landvörðum á svæðið, þó að störf þeirra létti verulega undir. 

„Fyrst og fremst væri að efla löggæslu, leggja meira fé til almannavarna og svo er að sjálfsögðu hægt að bæta þetta upp með einhvers konar landvörslu eða einhverju slíku, eins og reynslan hefur sýnt okkur að er bara nokkuð gott,” segir Otti Rafn.