Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráða landverði til að leysa björgunarsveitir af hólmi

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sat fyrir svörum í kvöldfréttum sjónvarps þar sem til umræðu voru úrlausnarefni vegna eldgossins í Meradölum.

„Við skulum vera minnug þess að björgunarsveitirnar eru bakbeinið í okkar almannavarnarkerfi en eru auðvitað ekki hugsaðar til svona langtíma gæslu eða leiðbeininga á svona svæðum þannig að það er núna í farvegi að ráða landverði sem að gekk mjög vel síðast og setja þá í þessa daglegu þjónustu og eftirlit á staðnum.“

Jón segir að björgunarsveitirnar verði hér eftir sem hingað til viðbúnar ef eitthvað kemur upp á sem kalli á þeirra aðkomu. Hann segir ráðningu landvarða í undirbúningi og vonast til að nýtt fyrirkomulag komist í gagnið á næstu dögum.

Vonar að barnabann sé tímabundið

Lögreglan hefur bannað fólki að fara með börn yngri en 12 ára að gosinu. Aðspurður hvort að eftirlit vegna bannsins kalli ekki á aukna löggæslu á svæðinu segist Jón vona að bannið sé tímabundið. „Við skulum vera minnug þess að þetta var sett núna þegar menn eru að ná utan um öryggismál á svæðinu sem lögreglan er jú ábyrg fyrir og allt of mörg dæmi um að fólk væri að fara vanbúið af stað.“  Jón segir bannið bagalegt gagnvart fjölskyldum sem vilji fara á svæðið með börn sem séu vön gönguferðum. 

Ástæða til að hafa áhyggjur af innviðum

Jón segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af innviðum á Reykjanesskaga. „Varðandi þetta sérstaka gos þá höfum við áhyggjur af fjarskipta innviðum og stofnvegabrautum og vegum. Við vitum ekkert hvað þetta varir lengi en við vitum að hraunstraumurinn er mun meiri en áður. Það getur staðið ógn af því. Ég hef síðan miklar áhyggjur af framhaldinu, vísindamenn segja okkur jú að nú séu fram undan áratugir jafnvel af virkri gossögu á Reykjanesi. Þar er 30 þúsund manna byggð. Þar eru mikilvægir innviðir eins og orkuframleiðsla, hitaveitu og vatnslagnir, alþjóðaflugvöllurinn okkar. Við þessu verðum við að bregðast með því að setja okkur eitthvað prógramm um uppbyggingu vara kerfa því við vitum ekki hvar næsta gos ber niður.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir