Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óþægileg tilfinning að sitja undir hótunum Rússa

13.08.2022 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalheiður Ámundadóttir fréttastjóri Fréttablaðsins segir mjög óþægilega tilfinningu að Rússar séu opinberlega reiðir við Fréttablaðið og þá sem þar starfi. Hún lýsir því hvernig hún upplifi ákveðna ógn og skoði aðstæður sem upp koma í því ljósi.

Aðalheiður var ein gesta vikulokanna á Rás 1 í dag. Þar sagði hún frá upplifun sinni af þeim styr sem staðið hefur um Fréttablaðið eftir að blaðið birti mynd sem sýndi fótum troðinn rússneskan fána. Rússneska sendiráðið krafðist afsökunarbeiðni og netárás var hótað á Fréttablaðið. 

Daginn eftir að netárásinni var hótað var Aðalheiður á leið hjólandi til vinnu þegar bremsurnar á hjólinu virkuðu skyndilega ekki, hún hafði hjólað heim kvöldið áður án vandræða. „Ég varð fyrir því í gær þegar ég er á leiðinni í vinnu að þá var hjólið bremsulaust. Ég bara stekk uppá hjólið og svo er ég að hjóla niður Barónsstíginn og þá bara allt í einu gríp ég í tómt sko, það er að koma bíll og ég bara þú veist. Ég hugsaði strax um Rússa, umsvifalaust, og ég meina ég veit að það er fáránlegt. það er fáránlegt og mer fannst það fáránlegt og ég skammaðist mín fyrir það. Svo hringdi ég í manninn minn og hann sagði strax, hefurðu skilið það einhverstaðar eftir eftirlitslaust?“

Aðalheiður segist ekki segja söguna vegna þess að hún haldi að átt hafi verið við hjólið heldur til að varpa ljósi á þá tilfinningu að sitja undir hótunum Rússa. „Og ég er ekki að segja, ég gruna ekki að Rússar hafi komið inn til mín að næturþeli og átt við hjólið mitt. Ég er bara að lýsa því hvernig manni verður við, maður bara lítur öðruvísi í kringum sig.“