Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Niðurrif regnbogafána til marks um aukna fordóma

13.08.2022 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Rangárþing ytra
Fjórtán og fimmtán ára ungmenni voru að verki þegar níu regnbogafánar voru skornir niður á Hellu á aðfaranótt mánudags. Atvikið er dæmi um aukna fordóma fyrir hinsegin fólki meðal unglinga segir forstöðukona félagsmiðstöðvar fyrir hinsegin ungmenni. 

Regnbogafánum var flaggað á Hellu í tilefni Hinsegin daga í fyrsta skipti í ár. Með því vildi sveitarfélagið sýna hinsegin fólki samstöðu en fánarnir sem flaggað hafði verið voru allir skorninr niður. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að málið teljist nú upplýst og að meintir gerendur séu fjórtán og fimmtán ára.

Hrefna Þórarinsdóttir forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna '78 og Tjarnarinnar segir fordóma fyrir hinsegin fólki hafa aukist meðal unglinga. „Ég veit ekki alveg hvort að það sé samfélagsmiðlum að kenna eða hvort að það sé hægt að tengja það við covidfaraldurinn eða hvað það er. Eitthvað sem gerist þarna á síðustu einu til tvemur árum sem veldur því að þetta hefur aukist alveg svakalega.“

Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvort málið sé flokkað sem hatursglæpur. Í svörum lögreglunnar við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að málið sé ennþá í vinnslu, tekin hafi verið viðtöl við meinta gerendur en ekki unnið úr þeim að fullu. Málið verði unnið áfram í samstafi við barnavernd. 

Hrefna segist vona að þetta mál verði til þess að fræðsla verði aukin. „Það þarf að upplýsa um hvað svona þýðir, eitthvað sem er kannski prakkaraskapur eða bara eitthvað á að fyndið grín til að pósta á tiktok eða hvað sem er. Að þetta sé alvarlegt, að þetta sé hatursglæpur og þetta sé árás gegn hinseginleikanum.“