Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mary krónprinsessa væntanleg til Grænlands

Mynd með færslu
 Mynd: Scanpix
Mary krónprinsessa Danmerkur er væntanleg í heimsókn til Nuuk höfuðstaðar Grænlands dagana 23. til 25 ágúst. Í tilkynningu frá hjálparsamtökunum Mary Fonden tekur krónprinsessan þátt í allmörgum viðburðum meðan á heimsókninni stendur.

Mary hyggst heimsækja þing 200 ungmenna frá norrænum og heimskautalöndum sem haldið verður í Nuuk. Tilgangur þess er að þróa nýjar hugmyndir og lausnir fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. KNR greinir frá.

Meðal verkefnanna er að finna leiðir til að bæta heilsufar jarðarbúa, auka aðgengi að menntun og hvernig leysa megi loftslagsvandann. Mary segist hlakka til að fylgjast með starfi unga fólksins sem hún segir hafa mikið að bjóða varðandi lausnir þessarra helstu áskorana veraldarinnar.

Annasamir dagar og margar heimsóknir

Jafnframt tekur Mary þátt í örráðstefnu um sorg og sorgarviðbrögð sem Sorgarmiðstöð Grænlands skipuleggur auk þess sem hún heimsækir Mælkebøtten.

Það er neyðarmóttaka og athvarf fyrir börn og ungmenni í Nuuk. Þessu til viðbótar hyggst Mary taka þátt í viðburði á vegum Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins og funda með Grænlandsdeild UNICEF. 

Mary Elizabeth Donaldson er yngst fjögurra barna þeirra Henriettu og Johns Dalgliesh Donaldsson. Þau eru skosk að uppruna en eru búsett í Tasmaníuríki Ástralíu.

Hún kynntist Friðriki krónprins Danmerkur árið 2000 í heimsókn hans á sumarólympíuleikana í Sydney. Þau trúlofuðu sig þremur árum síðar og gengu í hjónaband árið 2004.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV