Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leikkonan Anne Heche er látin

epa10117996 (FILE) - US actor Anne Heche arrives for the 25th Annual Race To Erase MS Gala at the Beverly Hilton Hotel in Beverly Hills, California, USA, 20 April 2018 (reissued 12 August 2022). Heche has been declared brain-dead aged 53 on 12 August 2022, according to a representative's statement issued on behalf of Heche's family. The actor is still on life support to determine whether her organs are vialble for donation. Heche had been hospitalized and on life support after suffering severe burns and critical injuries in a car crash in Los Angeles on 06 August 2022.  EPA-EFE/NINA PROMMER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Leikkonan Anne Heche er látin

13.08.2022 - 04:00

Höfundar

Bandaríska leikkonan Anne Heche er látin 53 ára að aldri. Vika er síðan hún slasaðist alvarlega í umferðarslysi.

Meðal þekktra kvikmynda sem Heche lék í eru Donnie Brasco frá 1997, Wag the Dog og endurgerð Gus van Sants á Hitchcockmyndinni Psycho árið 1998.

Heche var 53 ára en hún komst aldrei til meðvitundar eftir slysið sem varð þegar hún ók bíl sínum á hús í Los Angeles 5. ágúst. Slökkviliðsmenn sögðu hana hafa talað við sig meðan þeir losuðu hana úr bílflakinu.

Skömmu síðar missti hún meðvitund og 8. ágúst greindu aðstandendur frá því að hún væri fallin í dá. Homer eldri sonur Heche greindi frá andláti móður sinnar í dag með þeim orðum að þeir hálfbróðir hans Atlas hefðu misst móður sína.

„Sorgin er nístandi og djúp, ég get ekki fært hana í orð,“ sagði Homer í samtali við tímaritið People. „Ég vona að mamma sé loksins laus við allan sársaukann og farin að kanna það sem ég vil kalla eilíft frelsi hennar.“

Fjöldi fólks hefur minnst Anne Heche eftir að fréttir bárust af andláti hennar, þeirra á meðal spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres en þær bjuggu saman um þriggja ára skeið.

„Anne Heche var afar hæfileikarík leikkona sem mátti þola meiri hrylling en nokkur ætti að gera,“ sagði kvikmyndasagnfræðingurinn Mark Harris en Heche lýsti kynferðislegri misnotkun föður síns í endurminningabókinni Call Me Crazy sem kom út árið 2001.

Hún sagði þar að vegna þeirrar grimmilegu meðferðar hefði hún verið „brjáluð“ fyrstu 31 ár ævinnar. Sama ár og bókin kom út giftist Heche tökumanninum Coleman Laffoon en Homer er sonur þeirra. Þau skildu árið 2009 en Heche eignaðist Atlas með leikaranum James Tupper.