Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kanna möguleg ný op eftir að órói minnkaði skarpt

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Gosórói í Meradölum minnkaði skarpt milli klukkan hálfsex og hálfsjö í morgun. Sérfræðingar Veðurstofu Íslands kanna nú hvort það geti haft opnun nýrra gossprungna í för með sér.

Gosórói minnkaði skarpt áður en nýjar gossprungur fóru að myndast í eldgosinu í Fagradalsfjalli í fyrra. Hraun er ekki farið að renna yfir haft og úr Meradölum, segir sérfræðingur Veðurstofu.

Eins og greint hefur verið frá mun hraun að öllum líkindum renna óhindrað að Suðurstrandarvegi um leið og það kemst út úr Meradölum. Hraunið úr gosinu í Geldingadölum náði næstum að Suðurstrandarvegi í fyrra þegar það rann út í Nátthaga og því eru viðbragðsaðilar, að eigin sögn, mjög vakandi fyrir því hvort og hvenær hraun kæmist að Suðurstrandarvegi.

Hæglætisveður verður víða um land í dag og því má gera ráð fyrir að gas geti safnast í lægðum við gosstöðvarnar. Almennt verða aðstæður á svæðinu í dag þó með ágætum. 

Ríflega fimm þúsund manns fóru að gosstöðvunum í gær. Aðstoða þurfti nokkra göngumenn á leið frá gosinu, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum, og vísa þurfti nokkrum erlendum fjölskyldum frá vegna ungs aldurs barna.