Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grímuskyldu aflétt í kjölfar sigurs yfir kórónuveirunni

epa10115147 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean leader Kim Jong Un speaking during a 'national meeting of reviewing the emergency anti-epidemic work' in Pyongyang, North Korea, 10 August 2022 (issued 11 August 2022). The North Korean leader declared victory over the coronavirus disease (COVID-19) pandemic and called for preventive measures to be eased.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Grímuskylda hefur verið afnumin í Norður-Kóreu og slakað á öðrum takmörkunum vegna COVID-19, nokkrum dögum eftir að leiðtogi landsins lýsti dýrðlegum sigri í baráttunni við kórónuveiruna.

Ekki er lengur skylda að bera grímu nánast hvarvetna nema í borgum og sýslum nærri landamærunum að Suður-Kóreu. Hið sama á við um fjarlægðartakmarkanir manna í millum.

Stjórnvöld í Pyongyang, með Kim Yo Jong systur leiðtogans Kim Jong-un í broddi fylkingar, kenndu Suðurkóreustjórn um útbreiðslu faraldursins nú í vikunni og kváðust tilbúin til að þurrka stjórnina út ef þurfa þætti.

Leiðtoginn veiktist sjálfur

Kim Jo Jong greindi jafnframt frá því að bróðir hennar hefði veikst og fengið háan hita. Fyrstu tilfelli kórónuveirusýkingar greindist í maí en yfirleitt var vísað til sjúdómsins sem hitasóttarinnar.

Í fréttum ríkismiðilsins KCNA segir að veirunni hafi verið eytt um landið allt á mettíma en fólk með öndunarfærasjúkdóma er áfram hvatt til grímunotkunar. Eins er almenningur hvattur til að vera á varðbergi gagnvart „óeðlilegum hlutum“ á borð við áróðursbæklinga frá Suður-Kóreu.

Þrátt fyrir hörð mótmæli stjórnvalda í norðrinu halda suðurkóreskir aðgerðarsinnar uppteknum hætti við að senda loftbelgi yfir landamærin, sem bera þangað bæklinga og bandaríkjadali. 

Enginn talinn bólusettur

Frá því fyrsta tilfellið greindist í maí og þar til í júlílok eru skráð kórónuveirutilfelli, eða hitasóttartilfelli, í Norður-Kóreu um 4,8 milljónir en aðeins 74 andlát eða 0,002 prósent. Íbúar landsins eru um 26 milljónir.

Sérfræðingar segja heilbrigðiskerfi Norður Kóreu eitthvað það bágasta í heimi, sjúkrahús séu illa búin, gjörgæsludeildir fáar og smáar auk þess sem engin Covid-lyf eða bóluefni hafa verið í boði. 

Suðurkóreska fréttasíðan fullyrðir að ekki hafi nokkur Norður-Kóreumaður fengið bólusetningu þrátt fyrir að Kínverjar hafi sent nokkuð magn bóluefnis til landsins.