Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórfalt hraðari loftslagshlýnun á Norðurslóðum

13.08.2022 - 15:33
epa01690135 Illustration from NASA released 05 April 2009 shows the maximum sea ice extent for 2008-09, which occurred on 28 February 2009. Scientists who track Arctic sea ice cover from space said that this winter had the fifth lowest maximum ice extent on record. The six lowest maximum events since satellite monitoring began in 1979 have all occurred in the past six years (2004-2009). New evidence from satellite observations also shows that the ice cap is thinning as well. In recent years, Arctic sea ice has been declining at a surprising rate.  EPA/NASA HANDOUT  EDITORIAL USE ONLY/
 Mynd: EPA
Loftslag á norðurskauti jarðar hefur hlýnað um fjórfalt hraðar en annars staðar á jörðinni að meðaltali. Þetta eru niðurstöður norskra og finnskra vísindamanna sem birtust í grein í ritinu Communications Earth & Environment í vikunni.

Eldri rannsóknir sýndu tvö- til þrefalda hlýnun á norðurslóðum. Antti Lipponen, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði við norska miðilinn NTB að niðurstöðurnar væru sláandi enda gefi þær til kynna að munurinn sé töluvert meiri.

Rannsóknin byggist á umfangsmiklu gagnasafni sem nær aftur til 1979. Gögnin sýna að hitastig á norðurskautinu hefur að meðaltali hækkað um 0,75 stig á hverjum áratug. 

Sameinuðu þjóðirnar gáfu út skýrslu um bráðnun heimskautanna árið 2019 þar sem fram kom að hlýnun þar sé hraðari vegna þess að snjór og ís, sem endurvarpa sólarljósi, bráðna og verða að vatni. Það endurvarpar ljósinu ekki.

Að sögn Lipponen þýðir þessi hraða hlýnun að jöklar eigi eftir að bráðna hraðar. Það leiði til hækkandi sjávarmáls sem hafi áhrif á mannkyn allt, sagði Lipponen og lagði áherslu á að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum.

Í samantekt norska ríkisútvarpsins kemur fram að áhrifin verði gríðarleg. Ef Grænlandsjökull einn bráðni myndi það þýða sex metra hækkun sjávarmáls.