Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vopnaður maður skotinn til bana í umsátri lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: JEFFREY DEAN © Ritzau Scanpix
Vopnaður maður sem reyndi í gær að ráðast inn á skrifstofu bandarísku alríkislögreglunnar í Ohio-ríki var skotinn til bana eftir umsátur lögreglu. Ekkert bendir að svo stöddu til að atvikið tengist húsleit á heimili Donalds Trumps fyrrverandi forseta.

Maðurinn gerði tilraun til að brjótast gegnum öryggishlið á starfsstöð alríkislögreglunnar í borginni Cincinnati. Hann flúði af vettvangi þegar viðvörunarkerfi fór í gang og vopnaðir fulltrúar brugðust við.

Samkvæmt fréttum staðarmiðla veifaði maðurinn hálfsjálfvirkum riffli og skaut af naglabyssu áður en hann ók á brott. Lögregla hóf eftirför sem linnti ekki fyrr en komið var út fyrir borgarmörk Cincinnati.

Talsmaður lögreglunnar segir að reynt hafi verið að tjónka við manninn en hann hafi neitað að gefast upp. Hann hafi beint vopni sínu að lögreglunni en sjálfur verið hæfður skoti sem dró hann nær umsvifalaust til dauða. 

Christopher Wray, forstjóri alríkislögreglunnar, fordæmdi í gær hótanir stuðningsmanna Trumps í garð lögreglu. Slíkt framferði væri bæði aumkunarvert og hættulegt. Ofbeldi í garð lögreglu sagði hann að leysti ekki nokkurn vanda og þá gilti einu hvað það væri sem ylli reiði fólks.