„Við gleymum hvernig á að vera kurteis og góð“

Mynd: Hljómskálinn / RÚV

„Við gleymum hvernig á að vera kurteis og góð“

12.08.2022 - 10:57

Höfundar

Haraldur Þorleifsson, sem stendur fyrir átakinu Römpum upp Ísland, starfar sem stjórnandi á Twitter ásamt því að standa í ýmiss konar rekstri og sinna hugmyndavinnu. Hann segir að samskipti í gegnum síma og tölvuskjái geti verið flókin og að fólki láti gjarnan margt flakka sem kyrrt fengi að liggja augliti til auglitis.

Verkefnið Römpum upp Reykjavík, sem nú hefur teygt sig yfir landið allt, er hugarfóstur Haraldar Þorleifssonar sem er stjórnandi á Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno sem Twitter keypti af honum á síðasta ári.

Síðan verkefnið byrjaði hafa ramparnir skotist upp um alla borg og í vikunni var sá hundraðasti settur upp á Eyrarbakka undir merkjum Römpum upp Ísland. Nú er stefnt að því að setja upp þúsund rampa á fjórum árum víðs vegar til landsins. Þannig verði flestum gert kleift að sækja verslanir og veitingastaði á landinu. Haraldur kíkti í Morgunútvarpið á Rás 2 og sagði frá framtakinu.

Haraldur segist strax hafa fundið mikinn meðbyr þegar hann fór af stað. „Það voru allir til í að vera með, allir til í að hoppa á vagninn,“ segir hann en bætir því við að fljótlega hafi visst flækjustig gert vart við sig því enginn vissi hver ætti að sjá um að sjá um málið, borgin, ríkið, húsnæðis- eða verslunareigendur eða aðrir. En Haraldur gafst ekki upp fyrr en flækjan var leyst og verkefnið fór á fullt.

Í byrjun var unnið með borginni og gekk það hraðar en nokkur hafði þorað að vona. „Við ákváðum að byggja hundrað rampa sem var skot í loftið því við vissum ekkert hvað við værum að gera, en það tók átta mánuði í staðinn fyrir tólf. Við vorum langt undir áætlun bæði í verði og tíma,“ rifjar hann upp. Ríkisstjórnin hefur nú styrkt verkefnið um 200 milljónir sem nýtast í fjögurra ára markmiðið um að rampa upp landið.

Varðandi slæmt aðgengi hingað til segir Haraldur að þó það sé auðvelt að pirra sig yfir skorti á aðgengi og skilningi þá skilji hann sjálfur að fyrir þá sem ekki þurfi að nýta sér rampana gleymist þeir auðveldlega. „Í mínu daglega lífi hugsa ég ekki mikið um hvernig það er að vera blindur eða vera með aðrar hömlur í lífinu, svo maður skilur að einhver leyti að fólk er ekki að hugsa um þessa hluti en þá er það okkar sem samfélags að grípa inn í og vera með í þessu öllu saman.“

Twitter lýsir Haraldur sem miðli sem er frábrugðinn Tik Tok og öðrum svipuðum skemmtimiðlum þar sem tilgangurinn sé fyrst og fremst að aðstoða fólk við að eiga í samskiptum hvert við annað. Haraldur segir þó að það sé ljóst að fólk hagi sér öðruvísi fyrir framan tölvuskjá en augliti til auglitis. „Við erum yfirleitt miklu kurteisari og uppbyggilegri en við leyfum okkur að vera þegar við erum að fletta á skjá. Ég held við gleymum því oft að við erum að tala við annað fólk, við gleymum að við eigum að vera kurteis og góð hvert við annað.“

En rampaverkefnið, starfið hjá Twitter og fjölskyldulífið er ekki það eina sem Haraldur hefur á sinni könnu. Nýverið flutti hann með eiginkonu sinni og tveimur börnum á Tryggvagötu og tóku hjónin fljótlega eftir því að í húsinu á móti þeim væri laus aðstaða til sölu. Þau keyptu húsnæðið og ætla að útbúa þar kaffihús, veitingaaðstöðu og bíósal, „og skíra það í höfuðið á mömmu minni sem ég missti þegar ég var ellefu ára og hét Anna Jóna,“ segir Haraldur. „Við erum að vonast til að opna núna í haust. Það hefur reyndar dregist því það er erfitt að fá iðnaðarfólk en við erum að stefna á nóvember.“

Haraldur hefur líka verið í samtali við borgina um að opna sameiginlegt vinnurými í Hafnarhúsinu Tryggvagötu fyrir skapandi listafólk. „Við fengum tæpa 4000 fermetra frá borginni þar sem við getum vonandi búið til samfélag af ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í að koma sér út í listalífið,“ segir Haraldur um uppátækið. „Við settum saman öflugan hóp af lista- og framkvæmdafólki til að hafa umsjón með þessu með okkur.“

Áhugasamir geta kynnt sér verkefnið Römpum Ísland á rampur.is og svo má hafa samband við Harald símleiðis ef áhugi er á því að koma upp nýjum rampi.

Rætt var við Harald Þorleifsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.