Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir íþyngjandi að sitja undir þungum sökum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir faglega og persónulega íþyngjandi að sitja undir þungum sökum til langs tíma. Hann fór í skýrslutöku hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær.

Þórður og þrír aðrir blaðamenn, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, Þóra Arnórsdóttir á RÚV og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum, eru með réttarstöðu sakbornings vegna meintra brota á friðhelgi einkalífs í tengslum við umfjallanir um svokallaða skæruliðadeild Samherja. 

Þórður Snær var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hann lýsti skýrslutökunni sem hann fór í í gær. Hann sagði að þeim Arnari Þór hefði verið tilkynnt að grunur léki á að þeir hefðu brotið gegn ákvæði í hegningarlögum um stafræn brot, sérstaklega gegn kynferðislegri friðhelgi. 

„Þau voru að skoða einhvers konar deilingar á einhverjum kynlífsmyndböndum sem átti að vera að finna í þessum gögnum. Það var ekkert spurt um slíkt. Og sannarlega ekki um, eins og margir hafa nýtt sér þessar aðstæður til þess að gera, að gefa það í skyn eða segja það berum orðum, að við séum aðilar að því að eitra fyrir fólki og stolið af þeim eignum. Það er auðvitað fjarstæðukennt og enginn grunur um slíkt gagnvart okkur í þessari rannsókn,“ sagði Þórður Snær. 

„Mér finnst enn augljósara en áður að nú sé þessi vegferð, sem ég upplifi bara sem kælingartilraun gegn fjölmiðlum og það að reyna að draga ný mörk hvar tjáningafrelsismörk fjölmiðla liggja, sé runnin á enda og þetta verði það síðasta sem ég heyri af þessu máli.“

Þórður Snær segir niðurstöðu skýrslutökunnar þá að það hafi verið að rannsaka þá fyrir að skrifa fréttir upp úr gögnum sem þeim barst. Búið sé að halda þeim í þeirri stöðu að vera með stöðu sakbornings í rannsókn í meira en hálft ár, vegna umfjöllunar sem var skrifuð fyrir rúmlega ári síðan. 

„Það getur verið faglega íþyngjandi og náttúrulega persónulega íþyngjandi að sitja undir svona í svo langan tíma.“ 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV