Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óraunhæfar kröfur innviðaráðuneytis til sveitarfélaga

12.08.2022 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Landshlutasamtök hafa mótmælt þröngum tímaramma sem innviðaráðuneytið hefur gefið til skila á upplýsingum um málefni sveitarfélaga, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu ríkisins í grænbækur.

Sveitarstjórar ekki komnir til starfa alls staðar

Upphaflega var krafist skila þann ellefta júlí, síðan var gefinn frestur til mánaðamóta. Þann frest segir Albertína F. Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, óraunhæfan. „Þessi tímasetning og að gefa svona skamman tíma til þess að svara þessu og á tíma þar sem eru jafnvel ekki sveitarstjórar komnir til starfa, þykir náttúrulega bara ekki vera fyrirmyndar vinnubrögð hjá ríkinu,“ segir hún.

Fresta sumarleyfum eða geyma að svara

Þá taki líka flestar sveitarstjórnir sér sumarfrí í júlí. „Þetta náttúrulega hefur þau áhrif að einhverjir hafa þurft annað hvort að fresta sumarleyfum eða annað slíkt til að svara þessu, ég svo sem veit ekki alveg hvernig þetta fór, ég hugsa að einhver sveitarfélög hafa valið að geyma það að svara þessu,“ segir Albertína.

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, er einn þeirra: „Við náttúrulega bara náum ekki að vinna almennileg svör á þessu tímabili fyrir ráðuneytið til þess að vinna úr þannig að við getum í raun ekki skilað inn almennilegum svörum innan þessa tímaramma.“

Annar frestur hefur nú verið gefinn og er hann fimmtánda ágúst. „En hann er bara fjarri því að vera nægur, þetta var bara fært aðeins lengra inn í sumarfríin,“ segir Finnur.