Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nokkrir særðir eftir sveðjuárás í Liverpool

12.08.2022 - 00:30
Mynd með færslu
 Mynd: Etienne Godiard - Unsplash
Lögreglan í bresku borginni Liverpool handtók mann í dag eftir að hann réðst að og særði fjölda fólks með sveðju. Atvikið varð nærri leikvangi knattspyrnuliðsins Liverpool í Anfield-hverfinu.

Lögreglan á Merseyside var kölluð til á sjötta tímanum í dag vegna tilkynninga um að maður gengi um með sveðju á Arkles Lane í hverfinu, hrópaði að fólki og legði til þess með sveðjunni.

Manninum tókst að særa nokkra með vopninu sem í kjölfarið þurftu að leita á sjúkrahús. Enginn er talinn í lífshættu. Lögregla umkringdi manninn í Stanley Park, handtók hann og færði á lögreglustöð til yfirheyrslu.

Sá grunaði er talinn eiga við andleg veikindi að stríða. Lögregla segir málið ekki rannsakað sem hryðjuverk en The Guardian hefur eftir Cath Cummings, aðalvarðstjóra lögreglunnar, að árásin hljóti að hafa verið skelfileg fyrir þau sem lentu í henni og sjónarvotta.

Cummings segir að þakka megi skjótum viðbrögðum sérhæfðra lögreglumanna hve fljótt maðurinn náðist. Engin hætta sé lengur á ferðum.

Hún heitir fullri aðstoð lögreglu og bætir við að atvik sem þetta hljóti að valda ótta öllum þeim sem á svæðinu búa. Því verði fleiri lögreglumenn á ferð um Anfield næstu daga en venjubundið sé. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV