Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja gera leitarheimildina opinbera

11.08.2022 - 20:27
epa10116228 US Attorney General Merrick Garland delivers a statement on the recent FBI search of former President Donald Trump's Mar-a-Lago home from the Justice Department in Washington, DC, USA, 11 August 2022. The United States’ Federal Bureau of Investigation searched Trump’s residence in Florida on 08 August, reportedly as part of an investigation into materials and documents that Trump may have improperly removed from the White House.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna fór í kvöld fram á að leitarheimild sem alríkislögreglan fékk til að gera húsleit á heimili Donalds Trump fyrrverandi forseta verði gerð opinber. Húsleitin tengdist meintum misbrestum við meðferð skjala.

Merrick Garland dómsmálaráðherra boðaði til blaðamannafundar þar sem hann tjáði sig í fyrsta sinn um rassíuna. Sagði hann að ráðuneytið hafi skilað inn beiðni til dómstóls í Flórída um að leitarheimildin verði gerð opinber. Að sögn Garlands fékk lögmaður Trumps afrit af beiðninni á mánudag, þegar húsleitin var gerð. Ráðuneytið hafi ekki sjálft greint frá rassíunni heldur hafi forsetinn fyrrverandi séð um það að eigin frumkvæði.

Garland sagði alríkisdómstól hafa veitt leitarheimildina þegar alríkislögreglan hafði sýnt fram á rökstuddan grun í málinu. Þá sagði hann ráðuneytið nú vilja gera heimildina opinbera meðal annars vegna mikils áhuga almennings á málinu.

Bandarískir miðlar segja alríkislögregluna telja að á heimili Trumps megi finna skjöl frá því hann var forseti. Skjöl sem hann hefði átt að skila á bandaríska þjóðskjalasafnið. Þetta sé ólöglegt.

Samflokks- og stuðningsmenn Trump hafa gagnrýnt alríkislögregluna og dómsmálaráðuneytið af hörku og líkt rannsókninni við nornaveiðar. Á blaðamannafundi sínum sagði Garland slíkar árásir afar ósanngjarnar.