Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þurfum að spá í hvernig við umgöngumst hættuleg efni“

11.08.2022 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Huga þarf betur að frágangi eiturefna á heimilum, segir yfirlæknir á Barnaspítala hringsins. Eitranir hjá börnum vegna hreinsiefna og eiturefna eru algengar og það sé að mestu aðgengi að efnunum um að kenna.

Algengt er að foreldrar fari með börn sín á Landspítalann vegna nikótíneitrunar eftir að hafa innbyrt nikótínpúða. Flestar slíkar eitranir verða á heimilum, að sögn Ragnars Gríms Bjarnasonar yfirlæknis á Barnaspítala Hringsins. Það sama gildi um eitur- og hreinsiefni á heimilum. 

„Almennt þurfum við sem samfélag að spá í hvernig við umgöngumst hættuleg efni.“

Of algengt sé að eiturefni, svo sem leysiefni, terpentína og lakk sé geymt í öðrum umbúðum á heimilum en þeim sem efnin eru seld í, svo sem kókflöskum að sögn Ragnars. Efnin séu oft geymd í efstu hillum á heimilum en börn séu úrræðagóð og láti það ekki stoppa sig. Upp á síðkastið hafi einnig aukist að börn innbyrði uppþvottaefni.

„Þau eru gjarnan geymd undir vasknum. Þetta er með eitraðri efnum á heimilinu. Ef barn nær að kyngja þessu í einhverju magni getur vélindað brunnið alveg í sundur, og það er lífshættulegt, og getur valdið mikilli þjáningu og oft á tíðum langvarandi skurðaðgerðum og miklum þjáningum. Fyrir utan þá bara sjálfan lífsháskan.“

Ragnar segir uppþvottaefni sé oft í umbúðum sem séu heillandi fyrir börn. „Þau eru þau gjarnan klædd í plast með mjög litskrúðugum efnum, rauð og gul og blá. Skærir litir sem gjarnar eru tengdir sælgæti.“

Börnum finnist þetta heillandi. „Það sem sérstaklega lítil börn gera þegar þaa eru að kanna heimin þau setja hlutina upp í sig,“ segir Ragnar að lokum. 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV