Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þingeyjarsveit getur ekki auglýst eftir sveitarstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Þingeyjarsveit hefur ekki heimild til að auglýsa eftir sveitarstjóra til starfa. Eftir sameiningu við Skútustaðahrepp voru gerðar samþykktir þess efnis að enginn sveitarstjóri yrði hjá hinu sameinaða sveitarfélagi. Nýr meirihluti sveitarstjórnar er andvígur þessu og vill ráða sveitarstjóra.

Auglýst eftir sviðsstjóra stjórnsýslusviðs

Nýlega var auglýst eftir sviðsstjóra stjórnsýslusviðs hjá sameinuðu sveitarfélagi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, sem nú nefnist Þingeyjarsveit. Tekið er fram að þetta sé staða æðsta stjórnanda sveitarfélagsins og auglýsingin öll ber þess merki að verið sé að auglýsa eftir sveitarstjóra.

„Getum ekki auglýst eftir sveitarstjóra“ 

Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti Þingeyjarsveitar, segir að undirbúningsstjórn sem tók við eftir sameininguna hafi meðal annars gert þær breytingar á samþykktum sveitarfélaganna tveggja að nýtt sveitarfélag hefði engan sveitarstjóra. Meirihluti nýrrar sveitarstjórar hefur aðra stefnu og nú bíður tillaga, til breytinga á þessu, samþykktar hjá innviðaráðuneytinu. „Og á meðan við höfum ekki fengið þá staðfestingu á samþykktunum, þar sem ráðinn er einn sveitarstjóri sem er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, þá getum við ekki auglýst eftir sveitarstjóra,“ segir hún.

Vonast eftir jákvæðu svari úr ráðuneytinu

Samþykki ráðuneytið tillöguna segir Gerður að það starf, sem þarna er auglýst, verði starf sveitarstjóra. „Og trúlega fáum við nú svar þegar fólk kemur úr sumarleyfum. Og vonandi jákvætt svar.“