Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sérhæfður hópur sagður á bakvið netfjársvik

11.08.2022 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fjársvikum sem viðskiptavinir Landsbankans urðu fyrir í síðasta mánuði hefur leitt í ljós hópur sakborninga hafi sett upp skuggasíður til að hafa af fólki fé, það er að segja síður sem litu út eins og heimasíða Landsbankans en voru það í raun ekki. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Í tilkynningunni segir að rannsókn miði vel. Handtökur og húsleitir hafi verið gerðar í þágu rannsóknarinnar og telur lögregla að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.

Sakborningar virðist hafa komið til landsins til þess eins að svíkja fé af fólki og hafa viðkomandi sennilega sérhæfingu í netfjársvikum og peningaþvætti. Einn sat í gæsluvarðhaldi í tæpan hálfan mánuð á grundvelli rannsóknarhagsmuna en er nú laus úr haldi.

Viðskiptavinir bankans fóru inn á skuggasíðurnar í gegnum vafra. Þeir töldu sig vera að tengjast heimabankanum en voru í raun að veita tölvuþrjótum aðgang, sem millifærðu svo peninga af reikningunum.

Lögregla varar fólk því við að tengjast heimabönkum í gegnum leitarvélar heldur þurfi að gera það beint með að slá inn netfangið. Þá segir lögregla að fólk eigi að kynna sér netöryggismál og netsvikum, sem hafi færst í vöxt á undanförnum árum.

Þórgnýr Einar Albertsson