Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mótmæla úrræðaleysi borgarinnar í dagvistunarmálum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristín Tómasdóttir hefur boðað til mótmæla fyrir fund borgarráðs í klukkan níu, hún skorar á fólk að mæta með börn sín sem ekki hafi fengið dagvisunarúrræði hjá borginni. Fyrr í sumar lýsti Kristín því yfir að hún myndi mæta á fundi borgarstjórnar með barn sitt sem fengi ekki dagvistunarúrræði þar til einhverjar lausnir byðust. Borgarstjórn fundar hins vegar ekki fyrr en í september svo að Kristín ætlar að mæta á fund borgarráðs i dag. Hún á von á mörgum.

Innantóm loforð

Kristín segir stöðu foreldra sem bíði dagvistunarúrræða fyrir börn sín í Reykjavík mjög erfiða. „Annarsvegar er það þannig að sko þau lofuðu dagvisunarplássum fyrir börn tólf mánaða og eldri og það er bara alls ekki þannig að börn tólf mánaða og eldri séu að fá dagvistun og svo er það þannig að eldri börn sem eru svona að detta í tveggja ára þau eru að fá úthlutað plássum á leikskólum sem eru ekki opnir.“ Þá sé um að ræða leikskóla þar sem framkvæmdir standi yfir, plássunum sé lofað í október, jafnvel nóvember. Kristín segist þekkja til foreldra sem hafi fengið úthlutað leikskólaplássi í desember síðasliðinn en bíði enn eftir að komast að.

Þetta setji fólk í mjög erfiða stöðu, ef fólk búist við plássi sem borgin sé búin að lofa þá kannski skrái það börn sín ekki á biðlist hjá dagforeldrum eða einkareknu leikskólunum.

Fjöldi barna komi borginni alltaf á óvart

Kristín er sjálf með sitt fjórða barn í þessari stöðu, að bíða eftir dagvistunarúrræðum og segir lítið breytast. Hún segir að þar sem fjöldi barna virðist alltaf koma borginni á óvart hljóti áætlanagerð að vera ábótavant. Sjálf segist Kristín sjá lausnir við vandanum.

„Sumt af þessu strandar á lóðaframkvæmdum, það eru alveg fordæmi fyrir leikskólum erlendis þar sem eru ekki lóðir. Ef að borgarráð myndi kannski skoða það á næstu dögum, ekki setja það í nefnd og skoða það eftir ár. Þið getið farið fullt af leiðum það er hægt að fara fullt framhjá einhverjum reglugerðum,“ segir Kristín og nefnir líka að hinar færanlegu Ævintýraborgir eins og borgin kallar leikskóla í gámahúsum séu frábært framtak en alltof svifaseint þegar á hólminn sé komið. 

Býst við mörgum

Kristín býst við mörgum á mótmælin, hún segir foreldra orðna örvæntingafulla enda hafi þeir nýtt allar bjargir sem þeim bjóðist. „Þetta eru foreldrar sem eru búnir að nýta öll önnur úrrræði, ömmur og afar eru búnir að passa og passa. Þau eru löngu farin útaf vinnumarkaði og það er búið að nota sumarleyfi.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir