Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Höfðu þrjár milljónir af 30 viðskiptavinum Landsbankans

11.08.2022 - 20:34
Hópur brotamanna er talinn hafa komið hingað til lands í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr fólki. Þeir eru sagðir hafa sett upp skuggasíður í nafni Landsbankans og þannig haft rúmar þrjár milljónir af um 30 viðskiptavinum bankans. Lögregla telur brotamennina sérhæfða í netsvikum.

Skuggasíðurnar voru settar þannig upp að þegar nafn Landsbankans var slegið inn í leitarvél kom upp síða sem var ekkert frábrugðin vefsíðu Landbankans. Raunar var hún alveg nákvæmlega eins. Viðskiptavinir töldu sig því vera að tengjast heimabankanum en voru í raun að veita tölvuþrjótum aðgang að honum, sem millifærðu svo peninga af reikningunum.  

Þetta var í síðasta mánuði en lögregla varð fljótt vör við svikin og hafði hendur í hári karlmanns sem sat í gæsluvarðhaldi í tæpan hálfan mánuð, en er nú laus úr haldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hinir mennirnir eru taldir hafa flúði land en ráðstafanir hafa verið gerðar á landamærunum, að sögn lögreglu. Þá var húsleit gerð víða og tókst að leggja hald á hluta fjármunanna. 

Heimildir fréttastofu herma að þrír menn séu grunaðir um að hafa ferðast hingað til lands í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr fólki - en að þeir séu þó partur af stærri hópi sem sé sérhæfður í netsvikum. Mennirnir náðu rúmum þremur milljónum af tæplega þrjátíu viðskiptavinum bankans, fólki á öllum aldri. 

Lögregla segir netsvik hafa færst í aukana á undanförnum árum og hvetur fólk til þess að kynna sér netöryggismál. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum bera viðskiptavinir almennt tjónið sjálfir, ef þeir gefa upp innskráningarupplýsingar eða kortanúmer á svikasíðum. 

Heilbrigð tortryggni

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS, sagði í kvöldfréttum að gera megi ráð fyrir því að hver sem er geti gert árásir sem þessa.

„Þetta er bara orðin skipulögð glæpastarfsemi. Aðilar sem sérhæfa sig í því að reyna að herma þessa síðu sem við þekkjum, þessa heimabanka okkar. Þeir reyna að búa til síðurnar þannig þær séu nákvæmlega eins og þær sem við þekkjum. Þeir reyna að koma henni á framfæri, reyna að nota slóð sem er lík alvöru slóðinni til að blekkja augað, þeir reyna að koma sér efst í niðurstöður á leitarvélum og svo framvegis. Síðan reyna þeir að byggja í kringum þetta og reyna að herma auðkenningarferlið líka,“ sagði Guðmundur.

Fólk hefur tapað verulegum fjárhæðum á svindli sem þessu og sagði Guðmundur ljóst að svikahrapparnir þekki ferlið og þá þröskulda sem ekki má fara yfir nema maður stimpli inn SMS-kóða til auðkenningar.

Guðmundur ráðlagði fólki að vera tortryggið, vel á verði og horfa gagnrýnum augum á hvað er verið að biðja um. Fólk þurfi að skoða slóðir. Þá sagði hann að netárásir eigi eftir að færast í aukana.

„Ég held maður eigi alltaf að vera undirbúinn undir fyrir það og reikna með því að aðferðir aðila til að reyna að blekkja og klekkja á fólki verði fágaðari eftir því sem fram sækir. Þeir þekkja okkar aðferðir til að verjast og þeir munu reyna að yfirstíga þær.“

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórgnýr Einar Albertsson