Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forstjóri FBI uggandi yfir hótunum um ofbeldi

epa10105752 FBI Director Christopher Wray testifies at a Senate Judiciary oversight hearing in the Hart Senate Office Building in Washington, DC, USA, 04 August 2022.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Christopher Wray, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, kveðst uggandi yfir hótunum reiðra stuðningsmanna Donalds Trump fyrrverandi forseta í garð lögreglu. Þær hafa komið fram í kjölfar húsleitar á heimili hans.

Mótmælendur hafa safnast saman daglega við Mar-a-Lago setur Trumps í Palm Beach á Flórída frá því húsleitin var gerð. Margir hafa haft í hótunum við fulltrúa alríkslögreglunnar, einkum á vefnum og samfélagsmiðlum.

Á nokkrum vefsíðum sem haldið er úti af stuðningsmönnum forsetans fyrrverandi er lagt til að atlögur verði gerðar að alríkislögreglunni og öðrum yfirvöldum.

„Ég fyllist alltaf áhyggjum þegar lögregluyfirvöldum er ógnað. Ofbeldi í garð lögreglu er ekki lausn á nokkrum hlut og þá gildir einu hvað veldur reiði fólks,“ segir Wray á blaðamannafundi í dag.

Lögfræðingurinn Wray hefur verið forstjóri FBI frá því Donald Trump tilnefndi hann sem arftaka James Comey í janúar árið 2017. 

Wray sagði 73 lögreglumenn hafa dáið við skyldustörf á síðasta ári sem væri það mesta síðan í hryðjuverkaárásunum árið 2001. Wray var hins vegar ófús til að svara spurningum fréttamanna varðandi húsleitina og þau gögn og skjöl sem leitin beindist að.