Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

FÍB: Kílómetragjald sanngjarnast og skynsamlegast

11.08.2022 - 06:30
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB
 Mynd: Benedikt Nikulás Anes Ketilsson - RÚV
Framkvæmdastjóri FÍB segir kílómetragjald sanngjörnustu og skynsamlegustu leiðina til að innheimta gjald af bílum og umferð til lengdar. Hann bendir á að eigendum farartækja fjölgi sem ekki greiða fyrir notkun vegakerfisins með sama hætti og á við um bensín- og dísilbíla.

Því segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB,  að fara þurfi sömu leið við innheimtu og veitufyrirtæki beiti. Þetta kemur fram í innsendri grein Runólfs í Fréttablaði dagsins.

Hann leggur til að akstursnotkun verði áætluð í upphafi en endurskoðuð í takt við raunverulega notkun með álestri ökumæla. Runólfur bendir á ýmsar leiðir til þess álesturs, til dæmis á verkstæðum, við aðalskoðun eða jafnvel beint frá bílnum sjálfum með upplýstu samþykki.

Runólfur telur brýnt að setja upp sérstaka reiknivél svo bíleigendur geti hæglega mátað mismunandi akstursnotkun og ökutæki við framkomnar tillögur.

Hann segir undirbúning þurfa að hefjast strax með samráði við bíleigendur og þá sem hagsmuna eigi að gæta. Gjaldtakan þurfi að vera skynsamleg, hagkvæm og sanngjörn til að standa straum af rekstri vegakerfisins.

Þannig verði að mati Runólfs og FÍB unnt til lengri tíma að fella aðra skatta af bílum og umferð undir kílómetragjaldið.