Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert varð af annarri netárás

11.08.2022 - 22:42
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ekki varð af boðaðri netárás á Fréttablaðið klukkan níu í kvöld. Henni var hótað ef Fréttablaðið myndi ekki biðja rússneska sendiráðið afsökunar vegna myndbirtingar í blaðinu í vikunni.

Starfsfólk Fréttablaðsins gat því í kvöld komið blaðinu í prentun án vandræða eins og Fréttastofan komst að raun um fyrir tæpri klukkustund. 

Aðalheiður Ámundadóttir fréttastjóri sagði við fréttastofu klukkan rúmlega níu að síðan væri enn í loftinu.

Þið bruðgust við í dag, hvað gerðuð þið til að búa ykkur undir hugsanlega árás?„Það eru nú kannski fyrst og fremst hýsingaraðilarnir okkar sem að eru búnir að vera á útopnu í allan dag að passa kerfin okkar. Bæði tæknimennirnir innanhúss og svo hýsingaraðilar út í bæ, sem eru með svona auknar varnir og mér sýnist þeir vera að standast þetta próf alla vega. Svo, náttúrulega, erum við búin að kæra til lögreglu.“

Netárás var gerð á vefsíðuna í morgun og hefur hún, líkt og hótunarbréfið, verið kærð til lögreglu þar sem málið er komið til rannsóknar.

„Ég meina það er auðvitað óþægilegt fyrir alla sem hér vinna að sjónum Rússa sé svona beint að okkur. Það er auðvitað ekki þægilegt. Þetta eru ekki þægilegir fjandmenn,“ sagði Aðalheiður.

Hún segir merkilegt að rússneska sendiráðið hafi móðgast vegna myndar sem Fréttablaðið birti af fótum troðnum rússneskum fána.

„Og eiginlega hræsnisfullt þegar þeir eru auðvitað sjálfir að níða eigið orðspor, eigin þjóðfána niður, með því sínu framferði í Úkraínu. Þannig að það er auðvitað yfirmáta hræsnisfullt. En krafan, það kemur krafa frá Rússneska sendiráðinu í Reykjavík og henni er auðvitað bara hafnað. Þeir halda því sjálfir fram að þeir komi hvergi nálægt þessu netárásum. Við vitum ekkert um það en kveikjan er augljóslega hjá þeim.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórgnýr Einar Albertsson