Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Byltingarkennd nýjung í frjókornatalningu

Mynd: RÚV / Ólafur Göran Ólafsson Gros
Fyrsti sjálfvirki frjókornateljarinn á Íslandi notar gervigreind til þess að meta magn frjókorna í loftinu. Líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland segir framfarir í frjókornagreiningu jákvæðar fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi en um 10-14% landsmanna þjást að frjókornaofnæmi.

Stærsta byltingin síðan á fimmta áratugnum

Á þakinu á Borgum á Akureyri er búið að setja upp fyrsta sjálfvirka frjókornateljarann á Íslandi en þetta er stærsta byltingin sem hefur orðið í frjókornagreiningarbransanum síðan á fimmta áratugnum og óhætt að segja að nú geti frjókornaofnæmispésar glaðst mikið.

„Til þessa höfum við nýtt afar einfalt verkfæri, sem byggir á handtalningu. Við erum með frjókornalímband og þegar frjókornin festast við það klippum við það og skoðum allt undir smásjá,“ segir Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz, doktor í líffræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Skilvirkari og nákvæmari niðurstöður

Þessi eldri tækni er tímafrek og veldur því að niðurstöður frjókornamælinga liggja ekki fyrir fyrr en eftir nokkra daga. Hin nýja tækni er mun skilvirkari og nákvæmari. „Út frá gögnunum getum við sagt fyrir um á hverri klukkustund hvað við höfum í loftinu. Svo þegar fjrókornin lenda í tækinu höfum við niðurstöður innan fárra sekúndna. Fram til þessa höfðum við meðaltalið yfir daginn en núna getum við verið með það á klukkutíma hvað sé nákvæmlega í loftinu og nákvæmnin er mun meiri,“ segir Ewa.

Gervigreindin greinir gerð frjókornanna

Þetta kerfi er nýstrárlegt og það má aðeins finna í örfáum löndum heimsins. „Inni í tækinu eru tvær myndavélar sem taka myndir; það eru almyndir í tvívídd. Eftir það er gervigreind beitt við greininguna og svo fáum við niðurstöðuna í tölvu,“ segir Ewa.

Um tíu til fjórtán prósent landsmanna eru með frjókornaofnæmi og það er að aukast. Með þessum nákvæmu upplýsingum um styrk frjókorna geta ofnæmissjúklingar betur stjórnað einkennum sínum og skipulagt tíma sinn utandyra. Að veita landsmönnum þessar mikilvægu upplýsingar segir Ewa aðalmarkmið mælinganna.

Amanda Guðrún Bjarnadóttir