Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búast við að reisa leiðigarða við gosstöðvarnar

11.08.2022 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Almannavarnir gera ráð fyrir að reisa leiðigarða til að koma í veg fyrir að hraun renni inn á Suðurstrandarveg. Hraun er enn ekki farið að renna yfir Meradalaskarð en náttúruvársérfræðingur segir það tímaspursmál. hvenær það gerist.  

 

Hraunið rennur enn og stefnir hraðbyri yfir Meradalaskarð. Þar hefur það náð allt að átta metra hæð og þegar hraunið brestur á það greiða leið inn á Suðurstrandarveg. Vísindamenn spáðu því í gær að það gæti gerst á örfáum klukkustundum en þróunin hefur verið hægari en upphaflega var gert ráð fyrir.

„Staðan er sú að hraunið hefur verið að renna í aðrar áttir síðan við fengum þessa tungu, sem í raun er komin alveg að þessu skarði þar sem að hraun getur farið að renna út úr Meradölum. Og það er auðvitað tilviljanakennt hvernig hraunið rennur. Það eru að brotna tungur úr þessari hrauntjörn og við sáum það í gær að hraunið var að mestu að renna í þessu næsta nágrenni við gíginn, helst til vesturs og norðurs,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.

Erfitt sé að segja til um það hvenær hraunið fari yfir skarðið. 

„En auðvitað kemur að því að þetta rennur út úr. Og ef við fengjum aðra tungu á svipuðum stað að þá er vel hugsanlegt að hún færi þarna yfir. En hvort það gerist í dag eða á morgun eða eftir viku - það er bara mjög erfitt að segja.“

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum, segir að verið sé að skoða hvernig hægt sé að beina hrauninu frá vegum, ljósleiðurum og öðrum mikilvægum innviðum.

„Ég held að ég sé alveg viss um að við myndum fara í einhverjar slíkar aðgerðir,“ segir hann. 

„Og í raun hraunveggir sem slíkir, að stoppa hraun, þeir virka alltaf bara tímabundið. En við sáum það að það var settur upp leiðigarður sem í raun var í hraunstefnu fyrir ofan Nátthagakrika þegar hraunið stefndi þangað. Það tókst mjög vel til. Hraunið tók stefnuna aftur ofan í Nátthaga. Þannig að reynslan af því er góð og ég vænti þess að þeir verkfræðingar og hönnuðir sem unnu við þetta munu nýta sér hana og grípa þá til hennar ef hraun fer að renna í átt að Suðurstrandarvegi eða ljósleiðara eða öðru sem við viljum beina því frá,“ segir Björn. 

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV