Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Algengt að börn komi á spítala með nikótíneitrun

11.08.2022 - 09:01
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Algengt er að börn komi á spítala með nikótíneitrun eftir að hafa innbyrt niktótínpúða, allt upp í nokkur tilfelli í viku. Yfirlæknir á barnaspítala hringsins segir að flestar eitranir verði á heimilum en foreldrar átti sig ekki á því að nikótín er sterkt eiturefni sem hafi mun alvarlegri áhrif á börn en fullorðna.

„Það voru náttúrulega, meðan allir voru að veipa, voru olíurnar skildar eftir út um allt. Þær lyktuðu vel og voru í fallegum litum. Þá vorum við að fá slíkar eitranir. Nú eru nikótínpúðarnir vinsælli. Þeir eru líka bragðbættir og bragðast mun betur en sígaretturnar úr öskubakkanum,  sem voru hér aðalvaldur eitrana fyrir nokkrum áratugum,“ segir Ragnar Grímur Bjarnason, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins. 

Börn séu mjög viðkvæm fyrir eituráhrifum nikótíns og fái mun alvarlegri eitrunaráhrif en fullorðið fólk. Þau geti jafnvel verið lífshættuleg og leitt til innlagnar á gjörgæslu.

„Það þekkja nú flestir sem hafa prófað nikótín hver algengustu viðbrögðin eru. Það er ógleði, uppköst, svimi og vanlíðan. En hjá börnum getur þetta líka haft mjög alvarleg áhrif á miðtaugakerfið,“ segir Ragnar. 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV