Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útköllum vegna hnífaburðar fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögregla hefur að undanförnu varað við því að útköllum þar sem hnífar koma við sögu hafi fjölgað, einkum í starfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á liðnum vikum hafa komið upp allnokkur mál þar sem lögregla hefur haft afskipti af fólki með vopn, einkum hnífa. Lögregla hefur í þeim tilfellum gert vopnin upptæk. 

Samhliða þróuninni hefur lögregla áréttað að vopnaburður á almannafæri er bannaður samkvæmt vopnalögum. Þá gildir einu hvort um er að ræða minni hnífa, líkt og litla vasahnífa, nema sérstakar ástæður séu fyrir vopnaburðinum, svo sem vegna vinnu viðkomandi eða veiða.

Í dagbók lögreglu kemur fram að þetta sé ekki bara þegar átök, slagsmál eða pústrar verða í miðborginni síðla kvölds og um nætur um helgar, heldur hefur atvikum fjölgað þar sem hnífar koma við sögu víðar á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel inni á heimilum fólks.

Fjölgun mála frá 2016

Í skriflegu svari til fréttastofu segir Rannveig Þórisdóttir sviðsstjóri hjá Ríkislögreglustjóra, að nákvæm tölfræði um mál og útköll þar sem fólk er með hnífa liggi ekki fyrir. Greiningar bendi til þess að í vopnuðum ránum sé fólk oftar með vopn á sér þó þau séu ekki endilega notuð til að hóta eða ógna.

Fjölgun slíkra tilvika hófst eftir árið 2016. Hafa ber í huga að aukningin getur að hluta verið tilkomin vegna bættrar skráningar, segir í svarinu. 

Á árunum 2015 og 2016 voru að jafnaði 15 mál í mánuði þar sem lagt var hald á stunguvopn. Árið 2017 kom fram fjölgun sem var nokkuð stöðug fram til ársins 2019 en þá voru að jafnaði 23 mál í mánuði þar sem stunguvopn var gert upptækt. 

Í kjölfar heimsfaraldurs fækkaði málum lítillega en það var að jafnaði um 21 mál í mánuði. 

Óvenjumikil fjölgun í júlí 2022

Í ár hefur þeim aftur farið fjölgandi og er staðan svipuð og fyrir heimsfaraldur. Óvenjumikill fjöldi mála var skráður í júlí en þá voru slík mál 42 sem er sami fjöldi og í júlí 2018 og 2019.

Í svarinu frá Ríkislögreglustjóra er áréttað að þetta sé ekki skráning mála þar sem fólk er vopnað heldur mál þar sem stunguvopn eru haldlögð.

Þróunin gefi þó vísbendingar um breytingar í tíðni vopnaburðar. Fjölgun útkalla sérsveitar vegna vopnaburðar vísar til svipaðrar þróunar, segir í svarinu.