Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stefnir í mestu þurrka í Evrópu í 500 ár

10.08.2022 - 22:09
epa10111701 French farmer Benoit Roche inspects the dry soil of his field as he prepares to plant in Lissy, France, 08 August 2022. The department of Seine-Et-Marne, in the south-east of the Paris region, has been declared on drought alert by the authorities due to the lack of rain and several heat waves.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þurrkarnir í Evrópu í sumar stefna í að verða þeir mestu í 500 ár. Þeir hafa meðal annars valdið skorti á drykkjarvatni, fiskidauða og truflunum á vöruflutningum. 

Það hefur verið heldur blautt sumarið hér á landi, einkum á sunnan- og vestanverðu landinu og stefnir í næstblautasta sumarið í Reykjavík frá upphafi mælinga.

En víða í Evrópu er allt önnur staða. Um 60% álfunnar glímir við hita og mikla þurrka, sem hafa margs konar afleiðingar. Til að mynda glíma bændur víða við uppskerubrest, þar sem ilmandi grænn gróður er orðinn gulur, þurr og sölnaður.

Borið hefur á auknum fiskdauða vegna minna vatns og súrefnisskorts. Vatnsborð Rínar og Dónár hafa lækkað verulega, og sandrif jafnvel myndast á stöku stað. Fjölmörg flutningaskip fara alla jafna um árnar og þær ferðir ganga ekki vandræðalaust. Þrjú skip tók til að mynda niðri á skömmum tíma í Dóna þar sem hún rennur í gegnum Serbíu. Skipin geta ekki siglt fulllestuð í þessu ástandi, sem hefur þá áhrif á vöruflutninga.

Vatnsból eru víða orðin vatnslítil, jafnvel tóm. Í Frakklandi eru yfir 100 sveitarfélög vatnslaus og þurfa að fá vatn í tönkum. Og Hollendingar eru hvattir til að hætta að vökva garðinn og þvo bílinn, og stytta sturtuferðirnar vegna vatnsskorts. „Miðað við aukinn íbúafjölda og fjölgun nýrra húsa kemur að því að við eigum ekki nægt drykkjarvatn. Það verður að bregðast við, annars verður ekki til nægt vatn eftir 10-15 ár,“ segir Jaap Mos hjá vatnsveitunni Dunea.

Áframhaldandi hitum er spá í Mið- og Vestur-Evrópu fram í næstu viku og því lagast þetta ástand ekki í bráð. Það stefnir í sögulegt þurrkaár í Evrópu, að sögn Andrea Toreti sérfræðings hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. „Ef við horfum 500 ár aftur í tímann þá voru þurrkarnir árið 2018 þeir mesti á þeim tíma. En ég held að þetta ár verði verra en árið 2018.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV