Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sprungan smám saman að verða að gígum eins og í fyrra

Mynd: Sunna Karen Sigurþórsdóttir / RÚV
Í dag hefur gosið í Meradölum í viku. Gönguleiðir að gosstöðvunum voru opnaðar klukkan 10 í morgun eftir þriggja daga lokun. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofunni, segir að gosið þróist á svipaðan hátt og eldgosið í Fagradalsfjalli í fyrra.

„Það sem hefur gerst er að þessi gossprunga sem opnaðist, hún hefur svona fókúserast á miðjuna og þar eru svona hægt og rólega að byggjast upp gígar, svolítið eins og gerðist í síðasta gosi í fyrra," segir Kristín.

Hún segir að ekki þyki líklegt að fleiri gossprungur myndist á allra næstu dögum. Þó sé ekki hægt að útiloka að það gerist með síðar. Helst hefur verið horft til svæðisins norðan- og norðaustan við gosstöðvarnar í Meradölum í því sambandi.

Örfáar vikur liðu frá því að gjósa fór í Fagradalsfjalli í fyrra og þar til ný gosop mynduðust. Hraunflæði gossins í Meradölum hefur verið nokkuð stöðugt og fyrirsjáanlegt hingað til en búist er við því að hraun renni bráðlega úr Meradölum til austurs og þá í átt að Suðurstrandavegi. Spurð hvort raun muni renna yfir veginn, segir Kristín:

„Það mun gera það á endanum líklega, ef gosið verður nógu öflugt og stendur nógu lengi. Þá er það eitt af því sem gæti gerst, en tímalínan er mjög óviss."

Margir svindluðu sér inn

Búist er við fjölda ferðamanna að gosstöðvunum í dag. Gönguleiðir voru opnaðar að nýju klukkan 10 í morgun eftir þriggja daga lokun. Þrátt fyrir lokunina fóru um 2.000 manns upp að gosinu á þessum þremur dögum. Í gær var eftirlitið hert og Ferðamálastofa taldi aðeins tuttugu og fjóra þar. Gera má ráð fyrir því að það hafi verið björgunarsveitarfólk að störfum. 

„Það var náttúrulega bara lokað á bílastæðinu þannig fólk tróð sér þarna framhjá á ýmsum stöðum. En í gær var bara breytt um nálgun og það var sett upp svona gæsluhlið sitt hvorum megin á Suðurstrandaveginum og fólk var spurt hvert það væri að fara. Svo var hópur sem keyrði á milli þannig enginn, sem þyrfti að fara í gegn, gæti bara logið að okkur og færi bara beint á bílastæðið. Þannig það var mun harðar tekið á þessu í gær vegna dagsins þar áður," segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.

Verður það framvegis þannig þá?

„Þetta gekk bara mjög vel og ég geri bara ráð fyrir því, já, að þetta verði svona framtíðarlokun."