Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skoða mögulegar aðgerðir vegna lyfjaskorts

10.08.2022 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar hefur óskað eftir fundi í velferðarnefnd Alþingis til að ræða skort á lífsnauðsynlegum lyfjum fyrir börn, sem hefur ítrekað komið upp undanfarin ár.

Fundartími hefur ekki verið staðfestur en Þorbjörg segist eiga von á að hann verði á næstu dögum. Hún óskaði eftir fundinum eftir að yfirlæknir á barnaspítala Hringsins sagði frá stöðunni í fréttum RÚV. Hann sagði upplýsingar um skortinn ekki rata nógu fljótt til lækna, sem geri stöðuna hættulegri. 

„Þarna virðist manni, og hefur verið bent á, að kerfið virki ekki með þeim hætti að því sé flaggað tímanlega að lyfjaskortur sé yfirvofandi. Þannig mér fannst það í samræmi við eftirlitshlutverk þingsins að kalla saman velferðarnefndina og fá þá gesti og hagsmunaaðila fyrir nefndina til að fá mynd á stöðuna og til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til að tryggja að svona gerist ekki,“ segir Þorbjörg.

Til stendur að yfirlæknir á barnaspítalanum, forstjóri Lyfjastofnunar, landlæknir og fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins komi fyrir nefndina.

„Því manni skilst að það eigi að vera einhver mekanismi sem gefi heilbrigðisyfirvöldum og læknum það til kynna ef þessi staða er að teiknast upp. Það er að segja að einhver lyf séu ekki fáanleg. Eins og þessi læknir bendir á þá gerist það, og hefur gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að foreldrar standi úti í apóteki með uppáskrifuð lyf sem síðan reynast ekki vera til. Ekki bara úti í apóteki heldur á landinu öllu,“ segir Þorbjörg.