Prjónaáhuginn vakti furðu fréttamanna

Mynd: Aðsend / Aðsend

Prjónaáhuginn vakti furðu fréttamanna

10.08.2022 - 13:44

Höfundar

Dagný Hermannsdóttir textílkennari komst óvænt í sjónvarpsfréttir í Lettlandi þegar hún leiddi hóp prjónakvenna til landsins. „Þeim fannst merkilegt að það væri kominn stór hópur af íslenskum konum.“ Fréttamenn furðuðu sig á því að konurnar hefðu áhuga á prjónamenningu landsins.

Dagný Hermannsdóttir textílkennari var plötuð til að vera fararstjóri fyrir hóp 24 prjónakvenna til Lettlands. Hún hafði sjálf farið nokkrar ferðir og fallið fyrir prjónamenningu landsins. „Ég fór í fyrstu ferðina fyrir nokkrum árum með vinkonum til Lettlands og við höfðum lengi vitað af flottum prjónahefðum þar. Okkur eiginlega óraði ekki fyrir því hvað þetta væri stórkostlegt.“ Lettar eiga sér langa hefð í prjónaskap, sérstaklega í vettlingaprjóni. Dagný ræddi um prjónamenningu Letta í Morgunútvarpinu á Rás 2.  

Vettlingar voru gjaldmiðill 

Sögu vettlingaprjóns Lettlands má rekja aftur til þess að konur prjónuðu vettlinga til að gefa nýrri tengdafjölskyldu sinni við giftingu sína. Stúlkur byrjuðu ungar að prjóna vettlinga og safna sér í kistil. Vettlingarnir voru svo notaðir í gjafir og einnig til að greiða presti og öðrum sem komu að hjónavígsluathöfninni. „Þetta var eins konar gjaldmiðill,“ segir Dagný.  

Konur lögðu kapp á að hafa vettlinga sína sem glæsilegasta. Þær hönnuðu munstur og lögðu sig fram við að hafa handverk sitt sem frumlegast og fallegast. Flókin vettlingahefð Letta hefur haldið velli. Vettlingarnir eru prjónaðir á örfína prjóna og munstrin höfð í allt að fimm litum. „Ég er ansi vön prjónakona en þetta er mér mjög erfitt,“ segir Dagný.  

Prjónaferð sem endaði í sjónvarpinu

Dagný heldur brátt í annað sinn með hóp prjónakvenna til Lettlands. Auk prjónahefða ætla þær að kynna sér þjóðbúninga- og matarhefðir og skoða marga fallega staði. Áhugi íslenskra kvenna á prjónamenningu landsins vakti athygli í síðustu ferð þeirra til Lettlands. „Ég endaði í fréttatíma í lettneska ríkissjónvarpinu og á annarri sjónvarpsrás og í blaðaviðtölum.“ Fréttamönnum lék forvitni á að vita hvers vegna íslensku konurnar þekktu svo vel til vettlingahefða þeirra og hefðu áhuga á því að læra um þær. „Þeim fannst merkilegt að það væri kominn stór hópur af íslenskum konum,“ segir Dagný sem kom skemmtilega á óvart að ferðalagið þætti fréttnæmt.  

Ingvar Þór Björnsson og Rúnar Róbertsson ræddu við Dagnýju Hermannsdóttir í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í heild í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Spinna og prjóna úr hárum 18 hunda sinna

Innlent

Lopapeysan vinsæl sem aldrei fyrr í kófinu

Menningarefni

Leiddist að föndra origami og tók því upp prjónana