Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kærasti Kim Wall segir fjölmiðla hafa farið yfir mörk

epa06140357 (FILE) Swedish journalist Kim Wall poses for a picture in Sweden on 28 December 2015 (issued 12 August 2017). Swedish journalist Kim Wall was onboard a private submarine 'UC3 Nautilus' owned by Peter Madsen. The submarine sank on 11
 Mynd: EPA - TT
Fimm ár eru í dag síðan sænska blaðakonan Kim Wall var myrt við störf í Danmörku. Morðið er eitt umtalaðasta sakamál síðari tíma á Norðurlöndum. Kærasti Wall gagnrýnir fjölmiðlafárið í kring um málið harðlega.

Kim Wall var sjálfstætt starfandi blaðakona og voru verk hennar birt í fjölda virtra fjölmiðla, líkt og The Guardian, New York Times, Foreign Policy og Time. Ferill hennar var hins vegar stuttur, hún var myrt við störf aðeins þrjátíu ára gömul.

Dani hlaut lífstíðardóm fyrir hrottalegt morð

Þann tíunda ágúst 2017 átti hún bókað viðtal við danska uppfinningamanninn Peter Madsen og ekkert spurðist til hennar eftir fund þeirra. Madsen var síðar dæmdur til lífstíðar-fangelsisvistar fyrir að hafa myrt Wall og misþyrmt henni. Hann var einnig dæmdur fyrir illa meðferð á líki, fyrir að hluta lík hennar í sundur og kasta í sjóinn.

Kærastanum fannst fjölmiðlar ítrekað fara yfir mörk

Kærasti Kim Wall, Ole Stobbe, lýsir í nýjum hlaðvarpsþætti danska ríkisútvarpsins, hvernig honum þótti fjölmiðlar fara ítrekað yfir mörk í umfjöllun sinni um málið.

Þá lýsir hann símtali frá fréttamanni sem hafi beðið hann að ræða málið, allir aðrir nákomnir Wall hefðu neitað að tjá sig en það yrði að fylla ákveðinn tíma í sjónvarpsfréttunum með umfjöllun um málið. Ef hann vildi ekki ræða við fréttamenn, myndu þau þurfa að fjalla um hina hliðina, það er hlið morðingjans, Madsens.

Skilur þörf fyrir fréttir af morðinu en umfangið óeðlilegt

Stobbe segist skilja þörfina fyrir að fjalla ítarlega um svo mikilvægt mál, en þetta hafi farið út böndunum.

„Fjölmiðlar hefðu átt að spyrja sig að því miklu fyrr, hvort komið væri að þeim tímapunkti að málið væri einfaldlega ekki lengur fréttnæmt,“ segir Stobbe.

DR fundaði reglulega um siðferði í umfjöllun um morðið

Casper Walbum Höst stýrði umfjöllun DR um málið, og sagði að reglulega hafi verið fundað um siðferðisleg álitamál í umfjölluninni um morðið. Það væri þó mikilvægt að taka mark á frásögnum aðstandenda í svo erfiðum málum.

Hans mat væri að fréttamenn hefðu reynt að sýna nærgætni og það léki enginn vafi á því að umfjöllun um málið hefði verið réttmæt.