Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hættulegt að festast í fortíðinni

Mynd: Bjartur Veröld / Bjartur Veröld

Hættulegt að festast í fortíðinni

10.08.2022 - 13:11

Höfundar

Árni Árnason rithöfundur sendi nýlega frá sér skáldsöguna Vængjalaus sem gerist öðrum þræði árið 1996. Söguhetjan á erfitt með að sleppa tökum á fortíðinni.

Árni Árnason rithöfundur vatt kvæði sínu í kross eftir 20 ára feril í auglýsingabransanum. Hann gróf upp gamlan draum og gefur nú út sína þriðju skáldsögu sem heitir Vængjalaus.  

Börn kröfuharðir lesendur 

Árni hefur gefið út tvær barnabækur, Friðbergur forseti og Háspenna, lífshætta á Spáni. Hann segir börn vera kröfuharða lesendur: „Það eru lesendur sem sjá í gegnum þig ef þú ert eitthvað að reyna að vera annað en þú ert.“ Þriðja skáldsaga hans er ætluð fullorðnum og segir hann nýjar áskoranir fólgnar í því að skrifa fyrir nýjan hóp lesenda. „Maður beitir öðrum meðulum og notar aðra orðræðu en auðvitað er maður alltaf bara að segja sögur.“ 

Hættulegt að festast í nostalgíu

Skáldsagan Vængjalaus gerist á tveimur tímaskeiðum í ævi söguhetjunnar. Viðburðarríkur sólahringur árið 1996 hefur djúpstæð áhrif á persónuna sem er enn föst í fortíðinni 20 árum síðar. Árni segir fortíðarþrá vera skemmtilega en geta verið tvíeggja sverð. „Nostalgían er svo skemmtileg. En svo getur líka verið hættulegt að festast í fortíðinni.“ Fortíðin geti gefið okkur dýrmætar minningar sem farsælast sé að njóta sem slíkra, sem augnablika sem þarf eki að framlengja.  

Söguhetjan er miðaldra karlmaður í krísu, sem tekst á við sammannlega reynslu, að sögn höfundar. „Við göngum öll í gegnum þetta. Við þurfum öll að horfa gagnrýnum augum á sjálf okkur og spyrja reglulega hvert við erum að fara og hvað er það sem við virkilega viljum. Að vera trú sjálfum okkur. “ 

Rætt var við Árna Árnason í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á þáttinn í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég missti fyrirtækið og var á krossgötum“

Bókmenntir

„Líður eins og þetta hafi komið fyrir einhvern annan“

Myndlist

Leynist hið heilaga gral á Þingvöllum?

Bókmenntir

Betra að eiga sviðið sjálfur og vera áberandi