Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Get ekki opinberað mixtúruna sem er verið að galdra“

Mynd: Anna Hallin / Aðsend

„Get ekki opinberað mixtúruna sem er verið að galdra“

10.08.2022 - 15:38

Höfundar

Við innganginn að garðinum hjá Vesturgötu 33b er hvítmálað hlið. Sé gengið í gegnum það kemur maður að leynirými í litlu hliðarhúsi við hús skáldkonunnar Kristínar Ómarsdóttur. Þar hefur áður ónýttum geymsluskúr verið umbreytt í listagallerí sem nú hýsir sýningu með verkum eftir listakonurnar Önnu Hallin og Olgu Bergmann.

Sýningin Voyage, eða Vegferð, var opnuð 18. júní og hefur verið opin á sunnudögum síðan. Melkorka Ólafsdóttir í Tengivagninum á Rás 1 kíkti við og ræddi við Önnu Hallin og Olgu Bergmann og Kristínu Ómarsdóttur. „Titillinn er Vegferð. Við erum að hugsa um ferðalag, bæði ytra og innra,“ segir Anna. „Það er kannski þemað í sýningunni, sem og tímaflakk og tímaferðalag.“

Málverkin og skúlptúrarnir eiga sé enga hliðstæðu

Kristín segir að það sé kímnigáfa í verkum Önnu og Olgu sem kitli en sú kímnigáfa þekki líka dauðleikann og alvöruna sem tilveran hvíli á. „Hugmyndaflugið er algert,“ segir hún. „Það er jarðarbúans, geimfarans og dreymandans sem á í sambandi við jörðina. Jarðkúlu sem er bolti í þaraskógi sem er blað, himininn sem er dyr eða op. Öll dýr merkurinnar, fugla og fiska. Þær sveifla sér milli forma, málverkin, skúlptúrarnir og teikningarnar eiga sér enga hliðstæðu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Ómarsdóttir - Aðsend
Galleríið er staðsett í skúr í garði skáldkonunnar

Hrifnar af því að sýna í óhefðbundnu samhengi

Olga segir Glerhúsið mjög skemmtilegt rými sem þær séu ánægðar með að fá að sýna í. „Þegar nefndin sem stendur að galleríinu hafði samband sögðum við bara strax já,“ segir hún. „Það er gaman að frumkvæðinu þegar fólk tekur sig til og opnar gallerí, það er ekki á hverjum degi. Við höfum alltaf verið dálítið hrifnar að því að sýna í óhefðbundnu samhengi.“

Hafði áhyggjur af eldhættu

Kristín segir að geymslan hafi verið eldgömul og algjörlega ónýt. Hún ákvað að fá smiði og iðnaðarmenn til að gera hana upp svo hægt væri að nýta hana í eitthvað gagnlegt. „Ég var oft búin að hugsa áður, þegar geymslan var alveg ónýt, að ég væri miður mín yfir þessu. Ég hafði áhyggjur af eldhættu og alls konar og var að hugsa hvað ég ætti að gera við þetta pláss.“

„Þetta er gallerí“

Henni datt í hug að standsetja gróðurhús, opna bókasafn eða jafnvel lítið kvikmyndahús fyrir börn. „Ég var oft að hugsa bara: Hvað á ég að gera við þetta rými? Svo þegar gólfið var komið var rússneskur gólflagningarmaður sem lagði það og það var svo fallega gert,“ segir Kristín. Þegar hún skoðaði sig um með nýja gólfið vissi hún hvað væri best að gera. „Þetta er gallerí. En það er ekki svo þröngt að það geti ekki líka verið eitthvað annað, upplestrar, bíóhús eða annað en þetta allavega er hús fyrir list.“

Kannski sami staður á öðrum tíma

Olga og Anna hafa unnið saman um langt skeið, eða tæpa tvo áratugi. „Við gerum eigin verk líka og það hefur verið á nokkrum sýningum sem við blöndum saman. Hjartað eða kjarninn í þessari sýningu er stuttmynd eða vídjóverk. Það er heimur í þyngdarleysi en í því verki eru verk eftir okkur báðar,“ segir Olga. Þær hafa heillast að vísinda og spáskáldskap, ferðalögum og tímaflakki. „Í verkinu unnum við með kunnuglegt landslag en það verður framandi stef í landslaginu sem endurtekur sig eins og algóryðmi. Það er ákveðin stemning sem er búin til og er eins og annar staður, en kannski er þetta sami staður á öðrum tíma.“

Höfum horft á tunglið og nú á að virkja það

Á sýningunni má sjá tvær stórar blekteikningar, myndbandsteikningu og skúlptúr úr tré. Úti er útilistaverk á vegg sem sýnir eitt af tunglum Júpíters. „Þetta er löngun til að hafa eigin tungl. Við mannskepnan höfum horft á tunglið í mörg þúsund ár langt í burtu. Núna er planið að virkja tunglið og byggja kjarnorku þar sem hljómar eins og vísindaskáldskapur en er í fullum gangi,“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Ómarsdóttir - Aðsend
Kristínu datt í hug að hýsa þar gróðurhús, bókasafn eða jafnvel lítið kvikmyndahús

Sýningarhald að eilífu

Kristín segir að lokum að það sé enn draumur að nýta rýmið á fjölbreyttan hátt. „Okkur langar að hafa í þessu litla plássi bíósýningu fyrir krakka á púðum á gólfinu, að fá myrkratjöld. Þau verða þá að poppa heima og koma með það í bréfpoka,“ segir hún. „Þetta er fyrir bara samfélagið. Ég held að sýningarhald verði rauði þráðurinn sem við fylgjum og svo munum við taka hliðarspor en sýningarhald verður alltaf að eilífu.“

Hvorki rýmið né sýningin hafa verið auglýst og segir Kristín að það sé meðvitað og gert í tilraunarskyni. „Við munum kannski breyta þeirri stefnu,“ bætir hún við. „En ég get ekki verið að segja opinberlega uppskriftina, mixtúruna sem við erum að galdra bak við tjöldin. Við verðum bara að sjá hvað verður. Allavega þá er þetta mánaðagamalt og við getum bara verið mjög ánægð með þetta litla kríli.“

Galleríið er opið öllum á sunnudögum kl. 13-17.

Hér er hægt að hlýða á viðtalið í Tengivagninum á Rás 1.