Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forseti ASÍ segir af sér

10.08.2022 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Drífa Snædal forseti ASÍ, hefur ákveðið að segja af sér embætti forseta Alþýðusambandsins og þeim trúnaðarstörfum sem hún hefur gegnt sem forseti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu, þar segir Drífa að fyrir ákvörðuninni séu nokkrar ástæður. Meðal annars segist hún ekki treysta sér til að vinna með fólki sem hún á ekki samleið með í baráttunni. 

Drífa hafi verið í þeirri stöðu sem hún ætlaði sér aldrei, sem var að eiga ekki annars kost en að gagnrýna stjórnarákvarðanir og formenn stærstu stéttarfélaga innan ASÍ. 

Blokkamyndun meðal ástæðna

Í yfirlýsingu frá Drífu segir að hún hafi þurft að gera það upp við sig hvort hún gæfi áfram kost á sér, þar sem þing ASÍ verður haldið í byrjun október. Hún segist ekki hafa treyst sér til áframhaldandi starfa og þetta hafi verið niðurstaðan eftir að hafa íhugað málið.

„Þegar ég hugsaði málið varð niðurstaða mín sú að ég treysti mér ekki til að starfa áfram yrði ég til þess kjörin og af því leiddi að það væri skynsamlegt í ljósi kjaraviðræðna og undirbúning þingsins að hætta sem fyrst.“ 

Hún segist þakklát fyrir þann stuðnings sem hún hafi notið. „Það eru hins vegar samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefur átt sér stað sem gera mér það ókleift að starfa áfram sem forseti ASÍ,“ segir Drífa.

Treystir sér ekki til að starfa með fólki sem hún á ekki samleið með í baráttunni

Drífa segist ekki hafa vílað fyrir sér að taka slaginn fyrir launafólk gagnvart stjórnvöldum eða atvinnurekendum enda sé það hluti af því að vera í verkalýðsbaráttu. 

„Átök innan ASÍ hafa hins vegar verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga sem fara þvert gegn minni sannfæringu er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið,“ segir Drífa. 

„Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni. Og ég hef sem forseti verið í þeirri stöðu sem ég ætlaði mér aldrei; að telja mig ekki eiga annars kost en að gagnrýna stjórnarákvarðanir og formenn stærstu stéttarfélaga innan ASÍ.“

Mótmælti hópuppsögn á skrifstofu Eflingar

Drífa segist hafa séð sig knúa til að mótmæla, þegar stjórn Eflingar stóð fyrir hópuppsögn á skrifstofu félagsins. Verkalýðshreyfingin hafi barist gegn hópuppsögnum í tímans rás.

Þá hafi hún þurft að bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR á hennar störf. „Dæmin eru fleiri og það sem fólk leyfir sér í samskiptum hvert við annað innan hreyfingarinnar er henni ekki til framdráttar og félögum ekki til hagsbóta.“

Getur ekki sinnt störfum forseta lengur

Drífa áréttar að verkalýðshreyfingin sé ein merkilegasta mannréttindahreyfing heims og biður stuðningsfólk sitt um skilning á ákvörðuninni.

„Hjarta mitt hefur slegið þar og mun gera það áfram. Ég get hins vegar ekki sinnt störfum mínum lengur sem forseti ASÍ. Þá er hreinlegast að segja þetta gott. Og til að taka af allan vafa er þetta ekki hluti af einhverri stærri fléttu, ég einfaldlega hverf af þessum vettvangi án þess að hyggja á endurkomu,“ segir Drífa Snædal í niðurlagi yfirlýsingarinnar.

Kristján Þórður Snæbjarnason formaður Rafiðnaðarsambandsins, er fyrsti varaforseti ASÍ. Samkvæmt heimildum fréttastofu tekur hann við og situr fram að þingi ASÍ í október.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV