Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forsætisráðherra segir eftirsjá að Drífu

10.08.2022 - 17:57
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forsætisráðherra segir eftirsjá að Drífu Snædal úr forsetastóli ASÍ, hún hafi verið góður talsmaður verkalýðshreyfingarinnar og samstarfið við hana hafi verið gott.

Drífa Snædal tilkynnti um afsögn sína sem forseti ASÍ í dag og sagði meðal annars í yfirlýsingu að samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hafi átt sér stað geri henni ókleift að starfa áfram. Hún gagnrýnir vinnubrögð formanna VR og Eflingar.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hafa bæði svarað þessari gagnrýni í dag og sakað Drífu um samráðsleysi og að fara á bak við einstök félög. Eðli málsins samkvæmt er samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda stundum náið og forsætisráðherra segir eftirsjá af Drífu úr stóli forseta ASÍ.

„Ég get bara sagt það að samstarf okkar Drífu hefur verið með miklum ágætum og hún hefur verið góður talsmaður verkalýðshreyfingarinnar sem forseti ASÍ og vann til að mynda ötullega í kringum ýmis stór mál´í kringum lífskjarasamninga og annað slíkt þannig að það er að sjálfsögðu eftirsjá af Drífu úr þessu starfi,“  segir Katrín Jakobsdóttir.

Fjöldi kjarasamninga er laus í haust og því miklar kjaraviðræður fram undan. Katrín minnir á að einstök félög innan ASÍ fari með samningsumboðið og síðan verði nýr forseti kjörinn á þingi sambandsins í haust.

„Þannnig að auðvitað vona ég að aðilar, verkalýðshreyfingin sem og atvinnurekendur muni finna góðar leiðir til að ná góðum og farsælum samningum fyrir íslenskan almenning og þar með íslenskt samfélag.“