Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Afsögn Drífu Snædal stórtíðindi

Mynd: RÚV / RÚV
Það er alltaf harður vetur fram undan þegar kemur að stórum kjarasamningum, segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent og sérfræðingur í vinnumarkaði og stéttarfélögum, en alltaf nást samningar. Erfitt sé að ráða í það nú hver áhrifin verði af ólgu í verkalýðshreyfingunni sem birtist í afsögn Drífu Snædal úr embætti forseta Alþýðusambands Íslands.

Drífa sagði eftir að hún tilkynnti um afsögn sína að samskipti innan verkalýðshreyfingarinnar hefðu verið erfið. Stemmningin gagnvart henni af hálfu ákveðinna félaga innan hreyfingarinnar hefðu verið þannig að hún hefði ekki treyst sér til að vinna þar áfram. Þar vísar Drífa sérstaklega til Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, fjölmennustu stéttarfélaga innan ASÍ. Uppi sé misskilningur um að það sé það sama að vera rótttækur og kjaftfor. 

Ég hef áhyggjur af stöðu launafólks á Íslandi, vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í hreyfingunni. Erfið samskipti. Mér finnst það ekki vera neinum til sóma. Mér finnst að við eigum að axla þá ábyrgð, það hefur verið nánast óbærilegt á köflum. 

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, hefur fylgst með samskiptum á vinnumarkaði og stéttarfélögum í um 30 ár. Hann segir að afsögn Drífu séu mikil tíðindi og hún eigi sér ekki fordæmi á þessari öld. 
Gylfi bendir á að Alþýðusambandið séu regnhlífarsamtök og flóra félaganna sem þar eru inni er fjölbreytt. Þar er verkafólk, skrifstofufólk, sjómenn og iðnaðarmenn svo nokkuð sé nefnt. Kjarasamningar eru fram undan og samstaða í verkalýðshreyfingunni löngum verið talin lykilatriði þegar hún mætir viðsemjendum. 

Óljóst hver áhrifin verða

Erfitt er að sjá utan frá hver rótin að ágreiningnum er en hann á sér nokkra forsögu. Gylfi bendir á að Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, hafi lýst því að hann hafi rekið sig á veggi þegar hann kom til starfa í Alþýðusambandinu á sínum tíma. Á síðustu árum hafi verið sleginn nýr tónn í verkalýðsbaráttunni. Drífa var kosin fyrir fjórum árum og kjósa á í Alþýðusambandinu nýjan forseta í október, til næstu tveggja ára. Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrsti varaforseti og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, tekur við stöðu forseta ASÍ þar til nýr hefur verið kosinn og Gylfi segir að þar fari öflugur maður. Honum kæmi ekki á óvart að nýr forseti komi úr röðum iðnaðarmanna sem hafi löngum verðir málamiðlarar innan hreyfingarinnar. Starfsgreinasambandið og VR hafi þó sterka stöðu innan Alþýðusambandsins. 

Sólveig Anna segist ekki hafa hug á að sækjast eftir forsæti ASÍ en Ragnar Þór segir aðspurður að hann hafi ekki tekið neina ákvörðun um það.