Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mestu gróðureldar í Nýfundnalandi í hálfa öld

09.08.2022 - 03:36
Smoke rises from the ground among burnt trees after a forest fire flared anew in the village of Rebolo, near Ansiao central Portugal, Thursday, July 14, 2022. Thousands of firefighters in Portugal have been battling fires all over the country that forced the evacuation of dozens of people from their homes. (AP Photo/Armando Franca)
 Mynd: AP - RÚV
Yfirvöld í Nýfundnalandi og Labrador, austasta fylki Kanada, hafa lýst yfir neyðarástandi vegna gróðurelda. Eldarnir eru þeir verstu sem geysað hafa í fylkinu í yfir fimmtíu ár. Þúsundir hektara af skóglendi hefur orðið eldunum að bráð á síðustu tveimur vikum og er eldhafið enn stjórnlaust að sögn yfirvalda.

Andrew Furey, forsætisráðherra Nýfundnalands og Labrador, segir stöðuna hafa snarversnað á síðustu tveimur sólarhringum. Þau hafi því séð sig knúin til þess að lýsa yfir neyðarástandi, ekki til þess að ala á ótta heldur til þess að yfirvöld hefðu betri stjórn á stöðunni.

Óvenjulegt tíðafar í austurhluta Kanada

Gróðureldar á þessum slóðum í Kanada eru fátíðir, en óvenju þurrt, hlýtt og vindasamt sumar í ár skapaði kjöraðstæður fyrir hraða útbreiðslu gróðurelda. Þurrkar eru í kortunum í Nýfundnalandi og Labrador næstu daga og slökkvilið búa sig undir strembið tímabil.

Ekki hefur enn þurft að vísa neinum íbúum brott af heimilum sínum, en loftgæði eru víða slæm vegna mikils reyks.