Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eiríkur Guðmundsson látinn

09.08.2022 - 12:27
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Eiríkur Guðmundsson, útvarpsmaður og rithöfundur, er látinn. Eftir hann liggja skáldverk og menningarumfjöllun af ýmsu tagi, einkum á Rás 1 Ríkisútvarpsins.

Eiríkur Guðmundsson var fæddur þann 28. september 1969 í Bolungarvík. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund árið 1988, lauk B.A. prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og loks M.A. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla 1995. Eiríkur hefur lengst af starfað við dagskrárgerð á sviði menningar hjá Rás 1 Ríkisútvarpsins og hafði lengst af umsjón með Víðsjá og Lestinni þar sem hann fjallaði um menningarmál af ýmsum toga. 
 

Fyrsta bók Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, kom út árið 2004. Hann sendi frá sér fleiri bækur, m.a. skáldsöguna 1983 sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013 og síðast Ritgerð mín um sársaukann árið 2018.  Árið 2008 kom út bók Eiríks um skáldskap Steinars Sigurjónssonar, Nóttin samin í svefni og vöku, en Eiríkur ritstýrði endurútgáfu heildarverka Steinars þetta sama ár. Þá skrifaði Eiríkur fjölda ritdóma og tímaritsgreina  um bókmenntir, menningu og samfélag.

Eiríkur Guðmundsson lætur eftir sig einn son, Kolbein Orfeus, og stjúpdóttur, Vöku Blöndal.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV