Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Víða jarðfall og sprungur eftir jarðskjálftahrinuna

Kristín Jónsdóttir, eldgos, eldfjall, gosstöðvar, Meradalir.
 Mynd: Sunna Karen Sigurþórsdóttir - RÚV
Órói hefur aukist við gosstöðvarnar í Meradölunum sem hópstjóri náttúruvár segir til marks um að gossprungunarnar eru smám saman að þrengjast og þá byggist upp gígar líkt og í síðasta gosi. Talsverðar ummerki eru víða á Reykjanesi eftir jarðskjálftana um mánaðamótin.

Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands segir virknina í gosinu hafa verið svipaða frá upphafi. 

Gosið sé að mörgu leyti mjög svipað gosinu í fyrra. Viðlíka mikið gas kemur upp núna og Kristín segir að náttúruvísindamenn geti nýtt sér þekkinguna frá síðasta gosi.

Jörð rofnaði og víða hrundi úr hlíðum á Reykjanesi við alla þá sterku jarðskjálfta sem riðu yfir um mánaðamótin. Á Facebook síðu Jarðsöguvina má sjá myndir af ummerkjunum. 

„Við fengum 20 skjálfta sem eru fjórir af stærð, frá fjórum og upp í 5,4. Og það mynduðust sprungur víða í tengslum við þessa miklu skjálftahrinu. Við höfum verið að fá inn tilkynningar að fólk er að sjá þessar sprungur. Okkar besta vísindafólk er að skoða þær og við erum að taka þetta allt saman út.“ 

Ákveðið jafnvægi komið á

Kristín Jónsdóttir segir ákveðið jafnvægi komið á varðandi kvikuinnflæðið, kvika fer inn í kerfið og upp úr því og þannig hafi dregið úr spennu í jarðskorpunni.

Þannig dragi úr eftirmálum kvikuinnskotsins sem myndaðist í aðdraganda gossins. „Auðvitað þýðir það ekki að jarðskjálftar hætti alveg en það dregur smám saman úr þessum líkum.“

Kristín segir alltaf bakgrunnsvirkni á Reykjanesskaga, þannig að áfram má búast við jarðskjálftavirkni þar. Hún segir að jafnt og þétt dragi úr eftirmálum kvikuinnskotsins um mánaðamótin. 

En geta fleiri sprungur opnast?

„Það er líka annað sem við verðum að hafa augun opin fyrir. Það er eitthvað sem getur gerst. Við sáum það gerast síðast nokkrar vikur inn í gosið. Við þurfum að fylgjast vel með því og erum að gera það.“ 

Kristín segir líklegast að opnist nýjar sprungur verði það í hraunbreiðunni frá því í fyrra. „Við höfum gefið frá okkur kort sem sýnir hættusvæði. Það er auðvitað hættulegt að ganga á hraunbreiðunni.“ 

Erfitt sé að spá fyrir um þróun næstu daga og vikna. Kristín segir einhverjar líkur á að sprungur opnist norðan við þær sem eru virkar núna. Fólk eigi ekki að vera á ferli þar.

„Það er auðvitað stóra spurningin hvernig þessu vindi fram. Þetta er svona milljón dollara spurningin og við getum auðvitað ekkert svarað henni. Í ljósi þess að síðasta gos sem var áþekkt stóð yfir í sex mánuði þykir mér líklegt að þetta muni standa yfir í nokkra mánuði líka.“ 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðlaugur Viðar Viðarsson
Jarðfall á Sundhnjúki í Hagafelli. Sýlingafell og Stóra-Skógfell í bakgrunni.